Jarðskokkasúpa

Þessi súpa er alveg mjög einföld (eins og flestar súpur) en alveg rosalega bragðgóð. Það er eitthver náttúrulegur hnetukeimur af jarðskokkunum sem láta súpuna bragðast eins og hún hafi verið gerð á fínasta veitingahúsi. Jarðskokkar eru auðfundnir í búðum hér í Danmörku á veturnar og ég er nokkuð viss um að þeir fáist líka á Íslandi. Jarðskokkar (e. Jerusalem Artichokes) geta verið dáldið erfiðir fyrir meltinguna en þegar búið er að gera ilmandi góða súpu úr þeim er ekki hægt að standast freistinguna.

IMG_3258

Jarðskokkasúpa (fyrir 3-4):
750 g jarðskokkar
1 laukur
smjör
1-2 tsk kóríander
timjan
salt og pipar
1-2 dl rjómi
kjúklingakraftur/soð
1 epli
pekanhnetur (má sleppa)

Jarðskokkarnir eru skrældir og skornir í bita og laukurinn saxaður. Takið fram súpupott og látið á helluna með smá smjöri. Mýkið laukinn í smjörinu og þegar hann er orðinn glær látiði jarðskokka og kryddið út í. Hellið kjúklingasoði yfir þar til flýtur yfir grænmetið. Látið sjóða þar til jarðskokkarnir eru mjúkir. Maukið með töfrasprota og setjið rjóma út í og smakkið súpuna til. Berið fram með niðurskornum eplum og pekanhnetum eða vorlauk.

p.s. afsakið slæma mynd, ég týndi betri myndinni 😉 .

Valhnetubollakökur með marskremi

Ég fékk bókina Søde Sager eftir Mette Blomsterberg í jólagjöf og átti alltaf eftir að baka eitthvað úr þeirri bók. Mette er afburða konditormeistari og rekur kaffihús í Glyptoteket. Eftir miklar vangaveltur og kökulanganir ákvað ég að prófa þessar valhnetubollakökur. Mér leist ekki á kremið sem var í bókinni og vöntunina á súkkulaði þannig að ég lagaði uppskriftina aðeins til. En úr var afbragðs kvöldhressing sem bragðaðist unaðslega með ískaldri mjólk. Njótið vel 🙂 .

Bollakökur:
1 vanillustöng
150 g hrásykur
250 g hveiti
3 tsk lyftiduft
1/2 tsk salt
2 egg
100 g bragðlítil olía
2,5 dl mjólk
50 g grófhakkaðar valhnetur
1 mars skorið í litla bita

Aðferð:
Vanillustöngin skorin í tvennt og fræhreinsuð. Takið smá af sykrinum og blandið saman við vanillufræin. Blandið hveiti, sykri, lyftidufti og salti saman í skál og hrærið létt. Hrærið út í eggjunum og olíunni og því næst mjólkinni í smáum skömmtum. Bætið að lokum hnetunum og marsinu út í. Athugið að gott er að velta marsbitunum upp úr örlitlu hveiti svo að þeir festist ekki saman. Skiptið deiginu jafnt í muffinsform og bakið í 175°C heitum ofni í u.þ.b. 16 mín. Úr deiginu ættu að koma 10-12 kökur.

Kremið ofan á var fengið að láni frá mömmur.is en ég gerði bara 1/3 af þeirri uppskrift. Einnig lét ég smá mjólk út í súkkulaðið og marsið meðan það var að bráðna.
IMG_3310

Sítrónukjúklingur með fennel

Þessi kjúklingaréttur varð til hér á Birkegade eitt mjög svangt kvöld. Þessi blanda heppnaðist svo vel að mig langaði að deila þessu með ykkur. Verði ykkur að góðu 🙂 .

Kjúklingaréttur fyrir 4:IMG_3281
4 kjúklingabringur
1 fennel
1 sítróna
6 döðlur
nokkur rif hvítlaukur
1 sellerístöngull
furuhnetur (ef vill)
olía
rósmarín
múskat
salt og pipar

Takið fram eldfast mót og látið smá olíu í botninn. Skerið fennel í sneiðar og leggið í mótið ásamt niðurskornu selleríi, döðlum og hvítlauk. Látið bringurnar yfir og kryddið með salti, pipar og rósmaríni og örlitlu múskati. Ef það eru til furuhnetur í húsinu er gott að fleygja nokkrum með. Kreistið sítrónuna yfir allt og látið fylgja með inn i ofn. Látið í 180°C heitan ofn í u.þ.b. 45 mín. Gott er að bera kjúklinginn fram með veglegu salati og búlgúr eða hýðishrísgrjónum.

Chai-te kaka

Mér hefur lengi langað til að gera köku með chai-te bragði. Þegar ég sá þessa uppskrift ákvað ég að prófa að gera e-ð svipað með chai te og með dyggum stuðningi frá Völu varð til þessi prýðiskaka 🙂 .

IMG_3290

Innihald:
50 g púðursykur
175 g sykur
100 g smjör, mjúkt
2 egg
1 bolli mjólk
3 tepokar, chai
1 tsk vanilludropar
1 tsk lyftiduft
1/2 tsk salt
1 1/2 bolli hveiti

Aðferð
Mjólkin er hituð að suðu (passa að brenna ekki) og tepokarnir látnir út í. Slökkvið undir og leyfið að kólna.
Smjörið og sykurinn er þeytt saman og svo eggjunum hrært út í einu í einu. Því næst er þurrefnunum blandað út í og hrært, að lokum er temjólkinni (auðvitað án tepokanna) bætt út í og hrært. Hellið í smurt form og bakið við u.þ.b. 180°C í 40 mín eða þar til hægt er að stinga prjón í kökuna og hann kemur þurr út.

Ofan á kökuna lét ég minnkaða uppskrift af rjómaostakreminu og fræ úr granatepli. Það væri líka mjög gott að láta banana eða pekanhnetur ofan á. Njótið vel og slakið á með chai te og thai chi.