Döðlukaka

Þessi döðlukaka er alveg syndsamlega góð, smakkaði hana í veislu hjá systur minni og heimtaði að fá uppskriftina. Uppskriftin leyndist í uppskriftabók sem gefin var út af starfsmönnum Íslandsbanka og hefur líka birst í Gestgjafanum, ég vona að það sé í lagi að ég birti hana hér.

Kaka:
250 g döðlur
3 dl vatn
1 tsk matarsódi
1 tsk vanilludroparOLYMPUS DIGITAL CAMERA
100 g púðursykur
100 g smjör
2 egg
150 g hveiti
120 g súkkulaði saxað

Karamellusósa:
120 g smjör
100 g púðursykur
3/4 dl rjómi

Svona er farið að: Döðlurnar eru steinhreinsaðar og hitaðar í potti með 3 dl af vatni þar til þær verða mjúkar, svo eru þær maukaðar og blandan látin kólna. Púðursykur og smjör þeytt saman í skál og eggjunum bætt út í einu í einu. Matarsóda, döðlumaukinu og vanilludropum er bætt út í ásamt hveiti og súkkulaði. Hellið í form og bakið við 180°C í um 30 mín eða þar til kakan er tilbúin.

Allt sem þarf í sósuna er sett saman í pott og látið krauma í nokkrar mínútur. Berið kökuna fram með þeyttum rjóma eða ís og karamellusósunni.

p.s. Þessi kaka er alveg dísæt vegna sætunnar frá döðlunum, því mætti örugglega vel sleppa sykrinum í kökunni.

Uppfært: Hef prófað án sykurs, virkaði fullkomnlega!

Auglýsingar

Unaðslegt rækjusalat

Þetta salat er ótrúlega ferskt og mér finnst það góð tilbreyting í áleggsflóruna. Uppskriftin er frekar frjálsleg og einföld – einungis nokkur mikilvæg hráefni en svo er hægt að leika sér með magn.

Image

Rækjur
Klettasalat
Avókadó
Rauðlaukur
Lime
Ólífuolía
Chili
Hvítlaukur
Salt & pipar eftir smekk

Best er að byrja á að skera niður chili og hvítlauk, bæta því út í ólífuolíu og safa úr límónu og láta rækjurnar liggja í á meðan salatið er útbúið. Þegar salatið er tilbúið er öllu blandað saman. Gott að bera fram með ristuðu rúgbrauði.

Verði ykkur að góðu!

Afmæliskaka

Þessi súkkulaðikaka hefur verið í hávegum höfð heima hjá mér síðan ég man eftir mér, enda er hún rosalega góð. Mamma fékk þessa uppskrift á námskeiði í Húsmæðraskólanum. Ef hún er gerð hversdags má bara skella uppáhaldskreminu á og smá kökuskrauti. Fyrir afmæli er hægt að skreyta hana með smjörkremi og nammi eftir bestu getu.

ljon

Þessi kaka var borðuð í 8 ára afmæli hjá Kormáki

Súkkulaðikaka frá Húsmæðraskóla Reykjavíkur:
1 3/4 bolli hveiti
1 1/2 bolli sykur
1/3 bolli kakó
1 1/2 tsk lyftiduft
1/2 tsk matarsódi
!/2 bolli smjörlíki
1/2 bolli kaffi
1/2 bolli mjólk
2 egg
1 tsk vanilludropar

Öllu nema eggjunum blandað saman og hrært. Eggjunum bætt út í seinast og hrært í tvær mínútur. Hellið í vel smurt form og bakið í ca. 25 mín við 175°C.

Dökkt súkkulaðikrem:
150 g suðusúkkulaði
70-80 g palmin plöntufeiti (mætti nota kókosolíu í staðinn)
2-3 egg
1 msk sykur

Súkkulaði og feitin brædd saman, egg og sykur þeytt í annari skál. Bráðinni hellt út í eggjahræruna og þeytt á meðan. Leyfið aðeins að kólna áður en dreift er yfir kökuna.

Smjörkrem til skreytingar:
220 g flórsykur
3 eggjarauður
150 g smjör, mjúkt
Vanilludropar

Öllu hrært vel saman. Ef lita á kremið er matarlit hrært út í seinast.

Í ljónakökuna fór tvöföld uppskrift af súkkulaðikökunni en einföld uppskrift af báðum kremunum. Súkkulaðikreminu var dreift yfir alla kökuna eftir að hún hafði kólnað. Þá var kakan látin aftur í ískáp meðan smjörkremið var útbúið og því næst sprautað á.

Kúrbítslasagna

Gleðilegt ár kæru vinir. Fælles hygge er mætt aftur eftir mikinn hátíðarmömmumat í jólafríinu. Ég er fyrst núna byrjuð að geta hugsað um venjulegan mat og þá byrjar ballið 🙂

OLYMPUS DIGITAL CAMERA

Tómatsósa:
1 laukur
2 hvítlauksgeirar
nokkrar gulrætur
Sellerí
1 dós hakkaðir tómatar
1 dós tómatpúrra
skvetta af vatni
salt, pipar og ítölsk krydd

Hvít sósa:
1/2 poki ferskt spínat
1 pakki sveppir
ca. 200 g kotasæla
ca 200 g rjómaostur

Millilag:
Lasagnaplötur
2 kúrbítar skornir í sneiðar langsum

Tómatsósan:
Allt grænmetið skorið smátt og steikt á pönnu. Vökvanum bætt út í og kryddað eftir smekk. Látið malla í a.m.k. 10-15 mín.

Hvít sósa:
Sveppirnir skornir smátt og steiktir á pönnu, spínatið skorið smátt og bætt út í (einnig hægt að nota frosið). Kryddið með salt og pipar. Látið stikna smá á pönnunni en færið svo í skál og látið kólna. Kotasælan og rjómaosturinn hrærð saman í annari skál og svo öllu blandað saman.

Millilag og samsetning:
Eftir nennustigi má annað hvort steikja kúrbítinn aðeins á pönnu fyrst og sjóða lasagnaplöturnar áður en öllu er raðað saman eða bara raða kúrbítnum og plötunum beint í fatið þegar lasagnað er sett saman. Byrjið að raða kúrbít í fatið. Látið því næst lag af tómatsósu og svo lasagnaplötur og hvítu sósuna og svo koll af kolli. Endið með lag af rifnum osti. Bakið við 220° C í um 20 mín og njótið.

P.s. ef þetta er of mikið vesen má vel sleppa lasagnaplötunum og hafa bara kúrbít eða öfugt 🙂