Rabarbara-engifersíróp

Sæl aftur!

Þar sem ég skrapp til Íslands um miðjan maí datt bloggið smá úr takti, en hvað um það, áfram höldum vér! Á Íslandi smakkaði ég reyndar alveg unaðslegt rabarbaragos frá Himnesk Hollusta á veitingastaðnum Gló, sem er líka alveg tryllt góður. Þetta gos er reyndar ekki nýtt á markaðnum en ég var allavega nógu mikið eftirá til að smakka það fyrst núna. Allavega, það var alveg rosalega gott og þó að ég hafi fyllt hálfa ferðatöskuna af íslenskum mat þá komst rabarbaragosið ekki með. Þá brá ég á það ráð að endurskapa eitthvað þvíumlíkt. Úr varð þetta rabarbara-engifersíróp sem hægt er að nota eins og þykkni út í sódavatn til að búa til bleikan og sætan drykk.

Hráefni:
225 g rabarbari
ca. 5 cm engiferrót (um 40 g)
4 dl vatn
2 dl sykur

IMG_2083
Rabarbarinn og engifer er skolaður og skorinn í bita, og látinn í pott með vatninu og suðan látin koma upp. Hitinn er lækkaður og blandan látin malla í um 15-20 mín. Þá er blandan sigtuð í skál eða annan pott. Ég notaði sigti og eldhúspappír, en fínt sigti ætti kannski að duga.
IMG_2091

Þá fær maður þennan fína bleika vökva, sem má búa til sírópið úr. Vökvanum er skellt aftur í pott ef hann var ekki þar nú þegar og sykurinn látinn út í. Auðvitað má minnka eða stækka sykurmagnið eftir smekk. Sykurblandan er hituð aftur næstum að suðu eða þar til sykurinn hefur leyst upp. Þá þarf bara að láta blönduna kólna aftur og tappa á fýsileg ílát.
IMG_2104IMG_2149

Til að gera rabarbaragos er sírópinu bara hellt í glas ásamt sódavatni og limesneiðum í smekklegum hlutföllum og hræra vel í. Njótið vel!

Auglýsingar

Gráðostadýfa og kjúklingavængir

Þessir kjúklingavængir og gráðostasósa eru algjört æði og ég mæli eindregið með því að þið prófið þetta. Uppskriftin er kannski dálítið tímafrek en í rauninni er þetta frekar lítið mál og frábært lúxussnakk með sjónvarpsglápi. Þetta gúmmelaði var einmitt innbyrgt yfir Eurovision-áhorfi núna á laugardaginn.
IMG_2025
Gráðostasósa:
Gráðostur (um 100 g)
200 g sýrður rjómi
3 msk mæjónes (má sleppa)
Nýkreistur sítrónusafi, eftir smekk
Hvítlaukssalt
Pipar

Aðferð: Maukið gráðostinn með gaffli og hrærið vel saman við sýrða rjómann og mæjónesið. Svo er ca. hálf sítróna kreist yfir og saltað og piprað eftir smekk. Í staðinn fyrir hvítlaukssalt má líka kreista lítið hvítlauksrif út í og nota venjulegt salt.

Kjúklingavængir:
ca. 800 g kjúklingavængir
Hveiti ca. 2 dl
1 tsk Salt
Pipar
1 tsk laukduft
1/4 tsk cayenne pipar
1 tsk paprikuduft

Sósa:
ca. 60 g smjör
1 dl tómatsósa
1/2 dl sriracha chili sósa (ath frekar sterk sósa)
Skvetta af Worcestershire sósa
Skvetta af eplaediki (hægt að nota hvernig edik sem er)
Örlítið hunang (má sleppa)
Pipar og salt eftir smekk
Cayenne pipar (sleppa ef þið viljið ekki of sterkt)

Við gerð kjúklingavængjanna notaðist ég við þessa uppskrift frá Foodwishes sem ég mæli eindregið með að þið skoðið. Þó þurfti nokkrar breytingar til þar sem ég á ekki Frank’s Hot Sauce og veit ekki til þess að það fáist í Kaupmannahöfn. Hlutföllin í uppskriftinni eru líka frekar frjálsleg þar sem ég mældi í rauninni ekkert heldur fór bara eftir auganu. Ég þerraði bara kjúklingavængina vel, svo lét ég þá í poka með hveiti, salti, pipar, laukdufti, cayenne pipar og paprikudufti og hristi til. Vængjunum er raðað á ofnplötu með bökunarpappír eða álpappír sem hefur verið penslaður með olíu. Svo eru vængirnir eldaðir inni í 200°C heitum ofni í um hálftíma og svo snúið við og látnir eldast áfram í um 15-20 mín.

Á meðan kjúklingurinn eldast er allt í sósuna látið í pott og brætt saman (þarf ekki að sjóða). Svo er eina ráðið að smakka þetta til því að það er mismunandi hvað fólk vill hafa sósuna sterka. Ef sósan er of sterk er hægt að þynna hana út með vatni. Annars má þetta alveg rífa í því það er einmitt þetta sterka bragð sem passar svo vel með gráðostasósunni. Þegar vængirnir eru tilbúnir eru þeir settir í skál (því stærri því betri) og sósunni hellt yfir. Hristið/hrærið þar til allir vængirnir eru útataðir í sósu. Þá eru þeir settir á disk og látnir standa í nokkrar mínútur til að kólna. Einnig er hægt að láta þá aftur inn í ofninn í nokkrar mínútur til að sósan þorni aðeins utan á þeim, sem er gott þar sem eina/besta leiðin til að borða þá er með puttunum. Gott er að bera gráðostadýfuna og vængina fram með niðurskornu selleríi til að kæla munninn á milli bita. Njótið vel!

Fennelsalat

Hér er eitt sumarlegt salat með fennel og eplum og ýmsu góðgæti. Það tekur aðeins lengri tíma í undirbúningi en venjulegt salat en er alveg æðislega gott og góð tilbreyting með grillmatnum í sumar!

IMG_1980

Hráefnin eru þessi og að sjálfsögðu ekkert heilög.

Salat:
Fennel, 1-2 eftir stærð
1 Epli
Sellerístöngull, 1/2-1
1 paprika
1/2 rauðlaukur
1/2 sítróna

Dressing:
3 msk ólífuolía
1 msk hvítvínsedik
1/2 msk hunang
salt og pipar

Svo er farið að, fennel, paprika, rauðlaukur og eplið eru skorin í örþunnar sneiðar. Nú væri gott að eiga svona mandólín til að skera þetta en ef maður er ekkert að flýta sér er frekar róandi að skera grænmetið með hníf tímunum saman. Best er að kreista sítrónuna yfir eplið þegar maður er búin að skera það í bita svo að það haldi lit. Svo er öllu í dressinguna hrært saman og hellt yfir.

Fyrir stílistana þarna úti væri hægt að skipta rauðlauknum út fyrir púrrulauk og nota grænt epli og græna papriku til að fá allt í svona fölgrænum og fallegum lit. Njótið vel. Fennel er furðugott!

IMG_1985

Aspas og parmaskinka

Þegar vorar fer ferskur aspas að birtast í búðum og um að gera að borða eftir árstíðunum, þá kemst maður fljótar í sumarfílinginn. Það sakar allavega ekki að reyna. Aspas er gríðarlega fjölhæfur, hann er hægt að nota í pastarétti, með laksi, með linsoðnum eggjum og hvad som helst 🙂 . Hér er ein góð og einföld nýting á aspas sem bragðaðist mjög vel.

IMG_1926

Innihald:
Ferskur aspas
Parma skinka
Hvítvínsedik eða balsamik
Parmesan
Salt & Pipar
Ólífuolía

IMG_1923

Þetta er ofureinfalt, fyrst þarf bara að skola aspasinn og brjóta eða skera trénaða endann af. Ef maður tekur um neðri partinn á aspasnum og sveigir hann þá ætti hann að brotna á réttum stað. Pannan er hituð með olíunni, aspasinn látinn út á og saltaður og pipraður, þegar aspasinn er orðinn vel grænn og nærri því eldaður er gott að skvetta smá ediki út á pönnuna. Svo er parmaskinku vafið utan um nokkra í einu og parmesan rifinn yfir. Njótið vel.

Nørrebro smjör

IMG_1912

Á Nørrebro Bryghus hér í Kaupmannahöfn er hægt að smakka á ýmsum tegundum af mjöð og mat. Við fórum þangað út að borða síðasta haust þegar bróðir minn og kærastan hans komu í heimsókn hingað og fengum þriggja rétta máltíð og bjóra með hverjum rétt, mikið splæs, mikill bjór. Allt alveg gríðarlega bragðgott og næsað. En það sem stóð upp úr var samt brauðið á borðinu og smjörið með því. Guðdómlegt smjör með hnetukeim og nýbakað súrdeigsbrauð. Þar sem elshúsið var svona hálf opið náði ég að blikka mann í eldhúsinu og veiða upp úr honum uppskriftina, sem var gífurlega einföld og svohljóðandi: Takið smjör, skiptið stykkinu í tvennt, brúnið helminginn í potti, sigtið. Blandið brúnaða smjörinu við venjulega smjörið. Semsagt smjör blandað við sjálft sig. Ég vona að myndirnar sýni þetta betur. Óhugnarlega gott á nýbakað brauð eða jafnvel til að nota í smákökuuppskriftir til að fá meira bragð.

IMG_1898

Skiptið smjörinu í helminga

IMG_1901

Mmm bráðið smjör

IMG_1906

Látið smjörið krauma þangað til það verður karamellulitað og ilmandi

IMG_1910

Sigtið í skál og látið nálgast herbergishita svo að það bræði ekki hitt smjörið sem kemur út í

IMG_1911

Þegar brúnaða smjörið hefur kólnað má hræra því saman við sinn fyrri helming og kæla svo áfram. Þá er allt tilbúið!

Pad Thai

Í Tælandi í febrúar fórum við Daði á matreiðslunámskeið hjá gæðakonu sem kennd er við Poo. Hún heldur námskeiðið Cooking with Poo sem er gríðarlega vinsælt, hún er að sjálfsögðu tælensk og vissi ekki hvað nafnið hennar þýddi á ensku fyrst um sinn. En hún komst að því og ákvað bara að hlæja að því og prentaði út myndir af kúk til að hengja upp í eldhúsinu. Hún kenndi okkur að elda þennan unaðslega rétt sem heitir Pad Thai sem varð svo uppistöðufæða ferðalagsins, sem sagt borðaður ca. einu sinni á dag í 30 daga. Þessi réttur er bara svo bragðgóður og ferskur, allt þetta lime og chilli og kóríander gerir bara einhverja galdra. Hefðbunda uppskriftin af Pad Thai er kannski með aðeins fleiri innihaldsefnum, eins og t.d. þurrkuðum rækjum og tofu en þetta er einfaldaða útgáfan. 🙂

Pad Thai fyrir tvo:
1 stór kjúklingabringa, skorin í bita (einnig hægt að nota rækjur eða tofu)
200 gr hrísgrjónanúðlur, lagðar í bleyti í um 10-15 mín
1 lítill rauðlaukur
ca. 1.5 cm af galangal eða engiferrót, rifið
Hnefafylli af baunaspírum
2 msk fiskisósa
2 msk hvítt edik
3 msk sykur
Vatn eftir þörfum
Sesamolía, má sleppa
2 egg

Útákast:
Lime
Vorlaukur
Salthnetur, malaðar eða saxaðar
Kóríander, ferskt
Chilliflögur
Sykur, ef vill
Sojasósa, ef vill
IMG_1805 Þessi eldamennska tekur enga stund og því er best að hafa öll hráefnin tilbúin, niðurskorin og mikilvægast er að hafa lagt núðlurnar í bleyti(ATH! það gæti verið mismunandi eftir tegundum). Einnig er gott að setja saman í litla skál fiskisósuna, edik og sykur. En þá felst eldamennskan helst í því að henda hráefnunum á pönnuna í réttri röð. Já byrjum á því að taka fram stóra pönnu, wok ef þið eigið og hita hana vel og skvetta á hana duglega af olíu. Þá hefst hráefnakastið og röðin er svona:
1. Þegar olían er orðin heit er rauðlaukurinn látinn út á og látinn mýkjast í örstutta stund.
2. Látið kjúklinginn út á og steikið ásamt nokkrum dropum af sesamolíu ef því er að heilsa.
3. Núðlurnar (vatnið sigtað frá) látnar út á, og fiskisósan, edikið og sykurinn. Vatn eftir þörfum til að mýkja núðlurnar (ath kannski um hálfur dl)
4. Baunaspírur út á.
5. Öllu dótinu ýtt til hliðar á pönnunni og eggin sett á auða plássið og hræristeikt. Blanda svo öllu saman.

Já þá er maturinn tilbúinn, þetta tók kannski um 5 mínútur eftir því hversu heit pannan var og núðlurnar lengi að mýkjast. Ef núðlurnar eru ennþá harðar þarf að láta meira vatn á pönnuna og steikja þær lengur. En annars er þetta gífurlega einfaldur réttur. Og þá þarf bara að moka þessu á diskana og kreista lime yfir. Það sem er á listanum yfir útákast er frekar mikilvægt fyrir bragðið og því um að gera að sleppa því ekki. Það nauðsynlegasta er vorlaukur, lime og chilliflögur, en hitt gerir þetta ennþá betra.
IMG_1809

Heimagerður kebab

Halló halló halló,

Enn er fólk á lífi, ég þurfti því miður að fara í sjálfskipað eldunar og bökunarbann á meðan meistaraverkefnið var klárað og því lítið um dýrðir í eldhúsinu. En nú er maður loksins orðinn atvinnulaus verkfræðingur og getur t.d. eldað lambalæri fyrir Íslendingafélagið í Valby á sunnudögum. Þ.e. þegar maður er svo heppinn að eiga slíkt í frystinum. Það var einmitt það sem gerðist síðasta sunnudag, nema hvað að meðlimir Íslendingafélagsins í Valby eru frekar fáir og lærið var ansi stórt. Þess vegna var það líka borðað á mánudag, þriðjudag, miðvikudag og útlit fyrir að það verði aftur á föstudag. Til að hressa upp á afgangana var brugðið á það ráð að hita þá upp á pönnu ásamt framandi kryddum eins og cummin, kóríander og chilli. Grænmetissalinn á horninu lagði til nýbakað tyrkneskt brauð og með fersku grænmeti, sriracha sósu og pítusósu frá E. Finnsson varð til himneskur heimagerður kebab með íslensku lambakjöti!

IMG_0353 IMG_0354 IMG_0357

Slurp slurp slurp…