Kókosmuffins

Hér er uppskrift af kókosköku sem ég baka oft. Hægt er að baka kökuna í muffinsformi eða bara venjulegu sandkökuformi þá jafnvel hægt að sleppa kreminu því kakan verður ekkert þurr.

Kökur:
4 egg
3 1/2 dl sykur
1 tsk vanilludropar
1/2 tsk salt
1 1/4 tsk lyftiduft
5 3/4 dl hveiti
170 g smjör, mjúkt
400 ml kókosmjólk

Krem:
200 g rjómaostur
75 g smjör
3/4 tsk vanilludropar
1/4 tsk salt
250 g flórsykur
Kókosmjöl til skreytingar

Hitið ofninn í 180°C. Hrærið egg og sykur saman þar til blandan verður létt og ljós. Bætið vanilludropum, salti og lyftidufti út í. Bætið því næst hveitinu og smjörinu út í og hrærið vel. Að lokum er kókosmjólkinni blandað saman við. Látið í muffinsform og bakið í 20-25 mín. Ef notað er stærra form fyrir allt deigið þarf að baka í 35-40 mín.

Kremið er gert með því að þeyta saman rjómaost og smjör (best að hafa bæði við stofuhita) og svo er restinni bætt saman við og hrært vel. Einnig má bæta 2 dl af kókosmjöli beint út í kremið. Hægt er að skreyta kökurnar með kókosmjöli sem hrært hefur verið með ögn af matarlit til að lífga upp á tilveruna. Njótið vel.

Auglýsingar

Svepparisotto

Risotto er réttur sem oft fellur í skuggann af pasta og pizzum þegar talað er um ítalska matargerð. Til eru ótal tegundir af risotto, en í þessari uppskrift eru sveppir í aðalhlutverki. Það fer talvert magn af sveppum í þessa uppskrift; því meira því betra. Hægt er að nota hvaða gerðir af sveppum sem er, og gott er að blanda saman sem flestum tegundum.

Risotto er stundum borið fram sem meðlæti með öðrum réttum, en þessi uppskrift er ætluð sem aðalréttur fyrir fjóra. Eldamennskan er smá maus, aðallega vegna þess að risottogerð krefst þess að hrært sé nánast samfleytt í pottinum í um 20 mínútur. En örvæntið ekki, það er algjörlega þess virði fyrir þennan fáránlega góða rétt.

Svepparisotto:

1,5 l kjúklinga- eða grænmetissoð
3-4 msk ólívuolía
800 g sveppir
1 laukur
2 hvítlauksrif
350 g risotto hrísgrjón
1-2 dl þurrt hvítvín
1 msk hakkaður graslaukur
50 g smjör
30 g rifinn parmesan ostur
Salt og pipar

Sjóðið u.þ.b. 1,5 l af vatni og látið og kjúklinga- eða grænmetistkraft út í. Takið svo annan stóran pott og steikið sveppina í ólívuolíu þar til þeir eru orðnir mjúkir. Hellið síðan sveppunum ásamt vökvanum úr þeim í skál og geymið þar til síðar.

Steikið nú lauk upp úr ólívuolíu í smá stund, bætið svo risotto hrísgrjónunum við og steikið í um tvær mínútur til viðbótar eða þar til grjónin fara að brúnast. Hellið þá góðum slurki af hvítvíni yfir grjónin og hrærið vel þar til vínið hefur gufað upp.

Hellið nú smá af soðinu út á hrísgrjónin, þannig að rétt fljóti yfir þau. Hrærið síðan vel og hellið meira soði út á þegar þess gerist þörf. Haldið þessu áfram í um 15-18 mínútur, eða þar til hrísgrjónin eru fullsoðin, og hrærið í á meðan.

Þegar síðasti skammturinn af soði er horfinn, bætið þá sveppunum og vökvanum af þeim aftur út í pottinn. Bætið einnig við rifnum parmesan osti, smjöri, graslauk og salti og pipar. Hrærið þessu öllu vel saman þar til rétturinn er orðinn þykkur og flottur.

Berið fram í djúpum disk. Hvítvín hentar mjög vel með risotto og því er auðvitað fyrirtakshugmynd að bera fram vínið úr flöskunni sem notuð var þegar risottoið var eldað!

Grænkáls-snakk

ImageÉg smakkaði grænkálssnakk á garðyrkjustöðinni Engi sem er staðsett á Laugarási fyrir um það bil tveimur árum síðan. Síðan þá hef ætlað mér að prufa að gera svona sjálf. Í dag þvældist grænkál fyrir mér í búðinni og ég ákvað að það væri tilvalið að prufa þetta.

Þetta er ekki flókin matreiðsla, það sem þú þarft er:

 • Grænkál
 • Ólífuolía
 • Salt

Byrjið á því að skera Imagestöngulinn úr grænkálinu og því næst er kálið saxað eða rifið niður í munnbita. Kálið er þá sett í skál og smá ólífuolíu helt yfir það og síðan saltað örlítið. Öllu blandað vel saman og sett á bökunarpappír í ofnskúffu. Þetta er svo þurrkað í ofni við 100°C með blæstri í um það bil 30 mínútur, eða þar til grænkálið er orðið stökkt.

(Uppskriftin sem ég notaði er frá Engi)

Brauð í potti

Þetta er virkilega gott brauð sem erfitt er að klúðra. Eini gallinn er að það þarf að hefast í 12-20 tíma. En látið það samt ekki stoppa ykkur þar sem það tekur ekki nema 5 mínútur að blanda hráefnunum saman og svo þarf bara að bíða eftir að deigið hefi sig og þegar það er búið þá er bara að skella því í ofninn (eða svona hér um bil).

Image

Uppskrift:

 • 3 bollar hveiti
 • ¼ tsk salt
 • ¼ tsk þurrger
 • 1 ½ bolli volgt vatn

Aðferð:

 1. Blandið þurrefnunum saman í skál, setjið vatnið út í og blandið saman með sleif.
 2. Setjið plasfilmu yfir deigið og látið standa yfir nótt (minnst 12 tíma en helst í 18 tíma).
 3. Þegar deigið hefur hefast ætti það að vera blautt og freyðandi. Mótið það í bolta með Image veiti og leggið á smjörpappír og leyfið því að hvíla á meðan þið setjið pott með loki inn í ofn og bíðið þar til ofninn hefur náð 220°C.
 4. Takið pottinn út þegar ofninn hefur náð 220°C og setjið brauðið á smjörpappírnum ofan í pottinn (ég nota 2,5 lítra pott) og setjið lokið ofan á.
 5. Bakið í 30 mínútur með lokinu á.
 6. Takið lokið af og bakið í 15-30 mínútur þar til brauðið verður gullinbrúnt.
 7. Takið brauðið út og kælið á grind.

Síðan er hægt að prófa að setja allskonar sniðugt út í brauðið til að breyta til. Til dæmis cumin, hvítlauk, rúsínur, oregano, ost og svo framvegis. Mér finnst samt brauðið einstaklega gott svona óbragðbætt. Svo er auðvitað hægt að nota heilhveiti eða spelt í staðinn fyrir hveitið.

Uppskrift héðan, en lítillega breytt.

Snúðar

Þessir snúðar eru með geri og því frekar tímafrekt að búa þá til en algjörlega þess virði. Þeir eru bestir nýbakaðir en þessi uppskrift er frekar stór þannig að gott er að stinga þeim í frysti og hita seinna þegar gesti ber að garði, eða þegar maður verður svangur næst 🙂 .

Snúðar:
150 g smjör
5 dl mjólk
1 pakki þurrger
1 tsk salt
1 1/2 dl sykur
2 tsk kardimomma
15-26 dl Hveiti (breytilegt eftir veðri og vindum)

Fylling:
U.þ.b. 50 g smjör
Kanill, sykur og púðursykur hrært saman

Smjörið brætt í potti og mjólkinni hellt út í. Þegar blandan er orðin ylvolg er hún sett í stóra skál ásamt gerinu. Sykur, salt og kardimomma bætt út í. Látið standa í nokkrar mínútur. Því næst er hveitinu bætt út í (ég notaði að heilhveiti að mestu) og hnoðað þar til deigið sleppir hendinni sæmilega auðveldlega (passa samt að hafa deigið ekki of þurrt).

Látið deigið hefast í 40-60 mínútur.

Nú ætti deigið að vera orðið töluvert stærra, deigið hnoðað létt og skipt í tvo hluta. Hver hluti er flattur út í skikkanlegan ferhyrning. Smjörið er brætt í potti og penslað yfir deigið. Kanilsykri stráð yfir og deigið brotið í þrennt og skorið í lengjur. Snúið upp á hverja lengju og kuðlið saman í einhvers konar snúð.

Látið snúðana hefast í 20-30 mínútur, penslið með eggi og smá mjólk og bakið svo við 225-250°C í ofni í 5-10 mínútur. Borðið.

Alternative ending, ekki fyrir viðkvæma!

Karamellusósa:
50 gr. smjör
1 dl púðursykur
1 msk sýróp
1 msk vatn

Þegar búið er að fletja út deigið og smjörinu og kanilsykrinum dreift á er deiginu rúllað upp frá breiðari endanum. Rúllan skorin í 2-3 cm bita og raðað í eldfast mót. Látið hefast í um 20 mínútur og bakið svo í ofni við 225°C í u.þ.b. 8 mínútur, á meðan er allt sem þarf í karmellusósuna látið malla í potti við frekar háan hita. Þá er sósunni hellt yfir snúðana og jafnvel hökkuðum hnetum eða möndlum. Bakið áfram í 10 mínútur. Látið kólna smá áður en þið njótið til að fá ekki svöðusár í munninn. Verði ykkur að góðu 🙂 .

„40 fyrir 40“ í anda Herberts Guðmundssonar

Já, þetta hljómar undarlega 🙂 Málið er að við systur + viðhengi gerðum 40-fyrir-40 lista í eirðarleysinu í bústað í sumar og ég tók listana okkar Gunna með til Danmerkur í haust og þeir hafa verið að þvælast hérna síðan. Listarnir innihalda sem sagt 40 atriði sem við ætlum að gera áður en við verðum fertug.

Svo sá ég þetta vídeó á visir.is, þar sem Herbert Guðmundsson útskýrir hvernig hann gerir svona myndræna lífslista 😉

Sem varð til þess að ég rammaði okkar lista inn og er búin að hengja þá upp fyrir ofan rúmið, þar sem veggirnir inni í herbergi voru svo tómlegir. Ég mæli með að gera svona lista. Það er hægara sagt en gert að finna 40 atriði sem ykkur langar að gera fyrir fertugt, en ótrúlega gaman 🙂

Guacamole

Það eiga örugglega margir sína uppáhalds guacamole uppskrift. Þessi er mjög klassísk og í miklu uppáhaldi hjá mér. Mér finnst guacamole alveg nauðsynlegt með mexíkóskum mat (eða bara eitt og sér, með skeið, en það er annað mál). Hér er uppskriftin:

 • 2 þroskuð avokadó
 • 1 lítill rauðlaukur
 • 1 hvítlauksrif
 • 1 tómatur
 • Safinn úr 1/2 lime
 • Salt og pipar eftir smekk
 • 1 tsk cumin

Avokadóin stöppuð og safanum af lime blandað saman við svo að avokadóið verði ekki brúnt. Tómatar skornir í teninga og rauðlaukur saxaður smátt, ásamt hvítlauk. Öllu blandað saman og kryddinu bætt út í og þá er þetta tilbúið.