Fennelsalat

Hér er eitt sumarlegt salat með fennel og eplum og ýmsu góðgæti. Það tekur aðeins lengri tíma í undirbúningi en venjulegt salat en er alveg æðislega gott og góð tilbreyting með grillmatnum í sumar!

IMG_1980

Hráefnin eru þessi og að sjálfsögðu ekkert heilög.

Salat:
Fennel, 1-2 eftir stærð
1 Epli
Sellerístöngull, 1/2-1
1 paprika
1/2 rauðlaukur
1/2 sítróna

Dressing:
3 msk ólífuolía
1 msk hvítvínsedik
1/2 msk hunang
salt og pipar

Svo er farið að, fennel, paprika, rauðlaukur og eplið eru skorin í örþunnar sneiðar. Nú væri gott að eiga svona mandólín til að skera þetta en ef maður er ekkert að flýta sér er frekar róandi að skera grænmetið með hníf tímunum saman. Best er að kreista sítrónuna yfir eplið þegar maður er búin að skera það í bita svo að það haldi lit. Svo er öllu í dressinguna hrært saman og hellt yfir.

Fyrir stílistana þarna úti væri hægt að skipta rauðlauknum út fyrir púrrulauk og nota grænt epli og græna papriku til að fá allt í svona fölgrænum og fallegum lit. Njótið vel. Fennel er furðugott!

IMG_1985

Auglýsingar

Rabarbara- eplabaka

Gleðilegan 1. maí! Á þessum degi verkalýðsins er ekki úr vegi að skella í eina góða böku með rabarbara og eplum. Ég er ekki alveg viss um að baka sé rétta orðið í þessu samhengi en ég veit ekki gott orð yfir svona heita ávexti með stökku deigi yfir. En á ensku mundi þetta heita „crumble“. Kannski rabarbara -eplakrumla 🙂 Rabarbari vex allavega í mörgum görðum á Íslandi og villtur og því um að gera að nýta hann í sem flesta rétti, mikil búgdrýgindi það. Það tók mig sáran að kaupa mér rabarbara út í Brugsen en ég hef ekki séð rabarbara á víðavangi hér í Kaupmannahöfn og bý ekki svo vel að eiga garð.IMG_1958

Fylling:
Rabarbari, um 8-10 stönglar
Epli, 2-3
Safi úr hálfri appelsínu, má sleppa
1-2 cm engiferrót, rifin
Hrásykur, eftir auganu

Deigið:
100 gr smjör, kalt
ca. 1 dl hrásykur
ca. 1/2 dl kókoshveiti (má sleppa, og nota bara meira venjulegt hveiti)
ca. 1/2  dl hveiti
ca. 1 dl hafrar

IMG_1934

Skolið rabarbarann vel og skerið í litla IMG_1936bita, skerið eplin einnig í svipaða bita. Kreistið appelsínusafann yfir, blandið saman við rifna engiferinu og stráið smá hrásykri/sykri yfir. Bræðið örlítið smjör á pönnu og mýkið rabarbara/epla blönduna yfir miðlungshita. Látið svo blönduna í botninn á eldföstu móti og útbúið deigið.

IMG_1938

Í skál er smjör og sykri blandað saman, mér finnst best að nota hendurnar til að kreista þurrefnunum inn í smjörið. Svo er hveiti, kókoshveiti og höfrum blandað út í þangað til að deigið molnar svona í höndunum á manni án þess þó að vera of þurrt. Þá er deiginu pakkað ofan á rabarbarann og eplin og bakað inni í 180°C heitum ofni í um 35-45 mín, eða þar til deigið er orðið stökkt og gullið.

Á meðan bakan bakast er hægt að læra þýsku með því að horfa á myndbandið hér að neðan. Svo er gott að borða bökuna með þeyttum rjóma eða vanilluís.

Jarðskokkasúpa

Þessi súpa er alveg mjög einföld (eins og flestar súpur) en alveg rosalega bragðgóð. Það er eitthver náttúrulegur hnetukeimur af jarðskokkunum sem láta súpuna bragðast eins og hún hafi verið gerð á fínasta veitingahúsi. Jarðskokkar eru auðfundnir í búðum hér í Danmörku á veturnar og ég er nokkuð viss um að þeir fáist líka á Íslandi. Jarðskokkar (e. Jerusalem Artichokes) geta verið dáldið erfiðir fyrir meltinguna en þegar búið er að gera ilmandi góða súpu úr þeim er ekki hægt að standast freistinguna.

IMG_3258

Jarðskokkasúpa (fyrir 3-4):
750 g jarðskokkar
1 laukur
smjör
1-2 tsk kóríander
timjan
salt og pipar
1-2 dl rjómi
kjúklingakraftur/soð
1 epli
pekanhnetur (má sleppa)

Jarðskokkarnir eru skrældir og skornir í bita og laukurinn saxaður. Takið fram súpupott og látið á helluna með smá smjöri. Mýkið laukinn í smjörinu og þegar hann er orðinn glær látiði jarðskokka og kryddið út í. Hellið kjúklingasoði yfir þar til flýtur yfir grænmetið. Látið sjóða þar til jarðskokkarnir eru mjúkir. Maukið með töfrasprota og setjið rjóma út í og smakkið súpuna til. Berið fram með niðurskornum eplum og pekanhnetum eða vorlauk.

p.s. afsakið slæma mynd, ég týndi betri myndinni 😉 .