Bananakaka

IMG_2450
Ég játa! Þetta er eiginlega bara bananabrauð að þykjast vera kaka, en það hefur ýmsa kosti í för með sér. T.d. kippir sér enginn upp við það þegar maður lætur karamellusósu og ís á köku, en ef maður mundi gera það við brauð yrði maður litinn hornauga í samfélaginu.

Bananakaka:
125 g smjör, mjúkt
3/4 bolli púðursykur
2 egg
2-3 bananar, eftir stærð
1 dl ab-mjólk
1 1/2 tsk vanilludropar
1 1/2 bolli hveiti
1 1/2 tsk lyftiduft
1/2 tsk matarsódi

Smjörið og púðursykurinn er þeytt saman, eggjunum bætt út í einu í einu. Bananarnir eru maukaðir í matvinnsluvél og bætt út í blönduna ásamt vanillu og ab-mjólk (má líka nota sýrðan rjóma og mjólk). Hveiti, lyftiduft og matarsódi er sigtað út í og hrært þangað til kökudeig myndast 🙂 Hellið í smurt kökuform og bakið við 175°C í um 45 mínútur eða þar til kakan hefur brúnast aðeins að ofan. Berið fram með vanilluís, bananasneiðum og e.t.v. karmellusósu.

Auglýsingar

17. júní kaka

Gleðilega þjóðhátíð í gær öllsömul!

Hér á Birkigötu var haldin heljarinnar grillveisla í tilefni 70 ára afmælis íslenska lýðveldisins og meira að segja einn Dani tók þátt í fögnuðinum! Það voru grillaðir hamborgarar með heimagerðu hamborgarabrauði sem var mjög góð tilbreyting, þeir sem vilja prófa geta nálgast uppskriftina hér. Í eftirrétt var þessi þjóðlega kaka, með súkkulaðipekanhnetubotni, súkkulaðikremi og berjum og kókos ofan á.
IMG_2415
Súkkulaðipekankaka:
100 g smjör, mjúkt
3 dl sykur
2 egg
1 1/2 dl hveiti
4 msk kakó
1 1/2 tsk vanilludropar
1/4 tsk salt
1 dl pekanhnetur, hakkaðar

Krem:
1 1/2 dl flórsykur
1/4 bolli kakó
2-3 msk mjólk/kaffi
1-2 msk smjör, mjúkt
1 tsk vanilludropar

Aðferðin er sáraeinföld, þessu er öllu einfaldlega hrært saman þar til allt er orðið að einum graut. Deigið er látið í smurt kökuform og bakað í 180°C heitum ofni í um 30 mín. Þegar kakan hefur kólnað er öllu hráefninu í kremið hrært saman og sett á kökuna. Í tilefni þjóðhátíðarinnar var gerð ein og hálf uppskrift af kökunni og bláberjum, jarðaberjahelmingum og kókos raðað á til að mynda fánann en fyrir önnur tilefni er algjör unaður að láta hindber og pekanhnetur ofan á.

Rabarbara-engifersíróp

Sæl aftur!

Þar sem ég skrapp til Íslands um miðjan maí datt bloggið smá úr takti, en hvað um það, áfram höldum vér! Á Íslandi smakkaði ég reyndar alveg unaðslegt rabarbaragos frá Himnesk Hollusta á veitingastaðnum Gló, sem er líka alveg tryllt góður. Þetta gos er reyndar ekki nýtt á markaðnum en ég var allavega nógu mikið eftirá til að smakka það fyrst núna. Allavega, það var alveg rosalega gott og þó að ég hafi fyllt hálfa ferðatöskuna af íslenskum mat þá komst rabarbaragosið ekki með. Þá brá ég á það ráð að endurskapa eitthvað þvíumlíkt. Úr varð þetta rabarbara-engifersíróp sem hægt er að nota eins og þykkni út í sódavatn til að búa til bleikan og sætan drykk.

Hráefni:
225 g rabarbari
ca. 5 cm engiferrót (um 40 g)
4 dl vatn
2 dl sykur

IMG_2083
Rabarbarinn og engifer er skolaður og skorinn í bita, og látinn í pott með vatninu og suðan látin koma upp. Hitinn er lækkaður og blandan látin malla í um 15-20 mín. Þá er blandan sigtuð í skál eða annan pott. Ég notaði sigti og eldhúspappír, en fínt sigti ætti kannski að duga.
IMG_2091

Þá fær maður þennan fína bleika vökva, sem má búa til sírópið úr. Vökvanum er skellt aftur í pott ef hann var ekki þar nú þegar og sykurinn látinn út í. Auðvitað má minnka eða stækka sykurmagnið eftir smekk. Sykurblandan er hituð aftur næstum að suðu eða þar til sykurinn hefur leyst upp. Þá þarf bara að láta blönduna kólna aftur og tappa á fýsileg ílát.
IMG_2104IMG_2149

Til að gera rabarbaragos er sírópinu bara hellt í glas ásamt sódavatni og limesneiðum í smekklegum hlutföllum og hræra vel í. Njótið vel!