Bananakaka

IMG_2450
Ég játa! Þetta er eiginlega bara bananabrauð að þykjast vera kaka, en það hefur ýmsa kosti í för með sér. T.d. kippir sér enginn upp við það þegar maður lætur karamellusósu og ís á köku, en ef maður mundi gera það við brauð yrði maður litinn hornauga í samfélaginu.

Bananakaka:
125 g smjör, mjúkt
3/4 bolli púðursykur
2 egg
2-3 bananar, eftir stærð
1 dl ab-mjólk
1 1/2 tsk vanilludropar
1 1/2 bolli hveiti
1 1/2 tsk lyftiduft
1/2 tsk matarsódi

Smjörið og púðursykurinn er þeytt saman, eggjunum bætt út í einu í einu. Bananarnir eru maukaðir í matvinnsluvél og bætt út í blönduna ásamt vanillu og ab-mjólk (má líka nota sýrðan rjóma og mjólk). Hveiti, lyftiduft og matarsódi er sigtað út í og hrært þangað til kökudeig myndast 🙂 Hellið í smurt kökuform og bakið við 175°C í um 45 mínútur eða þar til kakan hefur brúnast aðeins að ofan. Berið fram með vanilluís, bananasneiðum og e.t.v. karmellusósu.

Auglýsingar

17. júní kaka

Gleðilega þjóðhátíð í gær öllsömul!

Hér á Birkigötu var haldin heljarinnar grillveisla í tilefni 70 ára afmælis íslenska lýðveldisins og meira að segja einn Dani tók þátt í fögnuðinum! Það voru grillaðir hamborgarar með heimagerðu hamborgarabrauði sem var mjög góð tilbreyting, þeir sem vilja prófa geta nálgast uppskriftina hér. Í eftirrétt var þessi þjóðlega kaka, með súkkulaðipekanhnetubotni, súkkulaðikremi og berjum og kókos ofan á.
IMG_2415
Súkkulaðipekankaka:
100 g smjör, mjúkt
3 dl sykur
2 egg
1 1/2 dl hveiti
4 msk kakó
1 1/2 tsk vanilludropar
1/4 tsk salt
1 dl pekanhnetur, hakkaðar

Krem:
1 1/2 dl flórsykur
1/4 bolli kakó
2-3 msk mjólk/kaffi
1-2 msk smjör, mjúkt
1 tsk vanilludropar

Aðferðin er sáraeinföld, þessu er öllu einfaldlega hrært saman þar til allt er orðið að einum graut. Deigið er látið í smurt kökuform og bakað í 180°C heitum ofni í um 30 mín. Þegar kakan hefur kólnað er öllu hráefninu í kremið hrært saman og sett á kökuna. Í tilefni þjóðhátíðarinnar var gerð ein og hálf uppskrift af kökunni og bláberjum, jarðaberjahelmingum og kókos raðað á til að mynda fánann en fyrir önnur tilefni er algjör unaður að láta hindber og pekanhnetur ofan á.

Rabarbara- eplabaka

Gleðilegan 1. maí! Á þessum degi verkalýðsins er ekki úr vegi að skella í eina góða böku með rabarbara og eplum. Ég er ekki alveg viss um að baka sé rétta orðið í þessu samhengi en ég veit ekki gott orð yfir svona heita ávexti með stökku deigi yfir. En á ensku mundi þetta heita „crumble“. Kannski rabarbara -eplakrumla 🙂 Rabarbari vex allavega í mörgum görðum á Íslandi og villtur og því um að gera að nýta hann í sem flesta rétti, mikil búgdrýgindi það. Það tók mig sáran að kaupa mér rabarbara út í Brugsen en ég hef ekki séð rabarbara á víðavangi hér í Kaupmannahöfn og bý ekki svo vel að eiga garð.IMG_1958

Fylling:
Rabarbari, um 8-10 stönglar
Epli, 2-3
Safi úr hálfri appelsínu, má sleppa
1-2 cm engiferrót, rifin
Hrásykur, eftir auganu

Deigið:
100 gr smjör, kalt
ca. 1 dl hrásykur
ca. 1/2 dl kókoshveiti (má sleppa, og nota bara meira venjulegt hveiti)
ca. 1/2  dl hveiti
ca. 1 dl hafrar

IMG_1934

Skolið rabarbarann vel og skerið í litla IMG_1936bita, skerið eplin einnig í svipaða bita. Kreistið appelsínusafann yfir, blandið saman við rifna engiferinu og stráið smá hrásykri/sykri yfir. Bræðið örlítið smjör á pönnu og mýkið rabarbara/epla blönduna yfir miðlungshita. Látið svo blönduna í botninn á eldföstu móti og útbúið deigið.

IMG_1938

Í skál er smjör og sykri blandað saman, mér finnst best að nota hendurnar til að kreista þurrefnunum inn í smjörið. Svo er hveiti, kókoshveiti og höfrum blandað út í þangað til að deigið molnar svona í höndunum á manni án þess þó að vera of þurrt. Þá er deiginu pakkað ofan á rabarbarann og eplin og bakað inni í 180°C heitum ofni í um 35-45 mín, eða þar til deigið er orðið stökkt og gullið.

Á meðan bakan bakast er hægt að læra þýsku með því að horfa á myndbandið hér að neðan. Svo er gott að borða bökuna með þeyttum rjóma eða vanilluís.

Bollakökur með sítrónu og birkifræjum

Á mánudaginn fór ég örstutt matreiðslunámskeið hjá heilsu-idol-inu mínu, hinni frægu Röggu Nagla (hún er með blogg hér). Þar lærðum við að gera alls kyns hollustugúmmelaði úr framandi efnum eins og próteindufti, steviudropum og sukrin. Eftir það námskeið fór ég að sjálfsögðu í næstu heilsubúð og keypti dýrum dómum sukrin gold sem kemur nokkurn veginn í staðinn fyrir púðursykur eða hrásykur og svo splæsti ég einnig í kókoshnetuhveiti. Svo reyndi ég eftir bestu getu að gera hollar bollakökur. En góðir hlutir gerast í smáum skrefum sagði kannski einhver ekki, en ég skipti allavega sykrinum út fyrir sukrin. Ég þorði ekki að taka hveitið út því mig langaði í fluffy og sjúklega góðar bollakökur, kókoshnetuhveitið getur verið dáldið þungt. Allavega, hér eru mjög góðar og páskalegar bollakökur með sítrónubragði og birkifræjum með örlitlu hollustuívafi. Birkifræ hafa samt ekkert með birki að gera, heldur eru þetta fræ af valmúaplöntu, þetta byggir víst allt á e-rjum jiddískum misskilningi.
IMG_1864

Bollakökur:
220 g hveiti
1 1/2 tsk lyftiduft
150 g sukrin gold eða hrásykur
2 kúfaðar msk birkifræ
Börkur af 2 sítrónum, bara guli hlutinn
1 tsk vanilludropar
2 stór egg
1 dl olía
1 dl ab mjólk
3/4 dl eplamauk

Aðferð:
Ég ákvað að leggja birkifræin í bleyti í soðnu vatni meðan ég skellti mér í sólbað, en ef það er ekki sól úti þá má alveg demba þeim bara beint út í 🙂 . Hveiti, sykri, lyftidufti, birkifræjum og sítrónubörk er blandað saman í skál. Öllu hinu hrært saman í annari skál og svo er því blandað saman við þurrefnin, passið bara að hræra ekki of mikið. Svo einfalt er það. Svo er deiginu skipt niður í muffinsformin, þið ættuð að fá um 16 kökur úr þessari uppskrift. Bakað við 180°C í um 15-20 mín eða þar til að prjónn kemur hreinn upp úr kökunum.

Ég ákvað að sleppa hollustunni í kreminu og gerði bara rjómaostakremið góða en þó með aðeins meiri sítrónusafa en áður og aðeins minna af flórsykri (það er líka til sukrin flórsykur). Kremið varð því aðeins meira fljótandi, og svo stráði ég meiri sítrónubörk ofan á. En það má algjörlega sleppa kremi, eða finna e-ð hollara ofan á.

Gleðilega páska!

Karjalanpiirakka

Finnland er kannski er kannski ekki þekkt fyrir matargerð sína en þar leynast þó nokkrir frábærir réttir. Ég bjó í Naantali, í Finnlandi haustið 2007 með systur minni sem var þar í námi og fékk þá að kynnast því hvað Finnland er AWESOME land! Árið 2009 fékk ég svo sumarvinnu í Tampere og fékk að endurnýja kynnin í betra veðri.  Það sem mér finnst einna best í matardeildinni frá Finnlandi (á eftir Missä X!!) eru pirökkur sem eru einhvers konar einhvers konar sætabrauð sem er þó ekki sætt á bragðið. Þær samanstanda af þunnu rúgdeigi og einhverns konar fyllingu. Fyllingin getur verið margs konar, oftast er það grjónagrautur eða grjónagrautur + rifnar gulrætur eða jafnvel kartöflumús.

Grjónagrautur:
2 1/4 dl Grautargrjón
2 1/2 dl vatn
1 l mjólk
Salt

Deig:
3 dl gróft rúgmjöl
2 dl heilhveiti
1 tsk salt
2-2 1/2 dl Vatn

Fyrst er grjónagrauturinn gerður eftir kúnstarinnar reglum, ég byrja reyndar á því að bræða smá smjör í potti og steikja grjónin aðeins í þeim, svo helli ég vatninu út á og læt sjóða þar til vatnið er næstum horfið. Þá lætur maður mjólkina út í, kannski fyrst helminginn og svo bæta alltaf meira í, eða ef maður er óþolinmóður er hægt að demba fernunni út í allri í einu. Svo er grauturinn látinn malla á lágum hita þangað til mjólkin verður svona glansandi og grjónin tilbúin, og þá er hann saltaður. Fyrir þennan tilgang er best að hafa grautinn mjög þykkann, og engar rúsínur takk!

Meðan grautinn er að kólna er rúgmjölinu, heilhveitinu og saltinu blandað saman og hnoðað með vatni. Látið eins mikið vatn og deigið getur tekið við, það þarf að verða hnoðanlegt en má samt alveg vera vel klístrað. Klípið smá af deiginu og hnoðið kúlu sem er á rétt minni en golfkúla, eftir því hvað þið viljið stórar/litlar pirökkur. Stráið vel af hveiti á kúluna og fletjið aðeins út í höndunum. Svo þarf að strá meira af hveiti á borðið og fletja út deigið með kökukefli í spöröskjulaga köku á stærð við hendi. Skv. Finnum á deigið að vera það þunnt að maður sjái sólskinið í gegn, en það má heldur ekki rifna því það þarf að halda á grjónagrautnum. Allavega, svo er grjónagrautur settur inn í og kanturinn klipinn upp á grautinn eins og vonandi sést á myndinni. Ég tók hluta af grjónagrautnum frá og blandaði við rifnar gulrætur.

piiraka

Þessi uppskrift ætti að gefa um 20 kökur, eftir því hvað deigið er þunnt og kökurnar stórar. Allt er þetta bakað inn í heitum ofni, um 270°C í um 10-15 mín eða þar til kantarnir eru orðnir létt brúnaðir og grautinn með svona þurrt yfirborð. Um leið og kökurnar koma út úr ofninum er gott að dýfa þeim í smjör og mjólkurblöndu (bráðið smjör og mjólk blandað saman). Svo eru kökurnar látnar kólna undir hreinu viskustykki til að þær haldist mjúkar.

IMG_1818

Hefðbunda leiðin er að bera þessar fram volgar með eggjasmjöri. Þá eru harðsoðin egg skorin niður og þeim hrært út í mjúkt smjör. Það hljómar undarlega en það er samt furðu gott. Hlutföllin eru kannski bara smekksatriði en ég mér finnst um 50 – 60 g af smjöri vega ágætlega á móti tveimur harðsoðnum eggjum. Annars er líka gott að borða þær bara eintómar, eða með e-rju áleggi. Þær eru líka mjög hentugar í nesti þar sem maður getur auðveldlega fryst þær og hitað bara upp í örbylgjuofni, eða ofan á brauðristinni fyrir þá sem eiga ekki svona nýbylgjuofna. Eins og sést á myndinni þá skapar æfingin vonandi meistarann í útlitsgerð pirakka, en þær eru allavega bragðgóðar, og svo krúttlegar, þær minna mann á sauðskinnskó. Allavega vona ég að þið prófið þetta, þetta er ekki alveg jafn mikið vesen og maður heldur og algjörlega þess virði. Njótið vel!

 

Crème brûlée

Mikill persónulegur sigur vannst í eldhúsinu í dag þar sem mér tókst að búa til sómasamlegt Crème brûlée. Nokkrar misheppnaðar tilraunir hafa verið gerðar hingað til og þetta var farið að leggjast alvarlega á sálina hjá mér. Um jólin fékk ég bókina Søde Sager eftir Mette Blomsterberg, sem er kontitori sjéní, ásamt handhægum gasbrennara og skálum þannig að öll tæki voru til staðar. En allavega nú er kominn júní og þetta heppnaðist loksins! Ekki vera hrædd, þetta var bara önnur tilraun ársins. Hér er uppskriftin og aðferðin, þetta er víst ekki svo flókið 😉

Fyrir fjóra til fimm:
100 g hrásykur
1,3 dl af eggjarauðum
6,5 dl af rjóma
1 vanillustöng
hrásykur til að strá yfir

IMG_3559100 g hrásykur og eggjarauður eru hrærðar saman með handþeytara. Vanillustöngin klofin og kornin skröpuð út og látin í pott ásamt rjómanum. Rjóminn er hitaður að suðu og látin malla í örfáar mínútur. Takið af hitanum, hellið smátt og smátt saman við eggjahræruna og hrærið stöðugt í á meðan. Hrærið aðeins áfram þegar allur rjóminn er kominn út í. Fleytið svo mestu froðuna ofan af og hellið í skálar. Ég var með frekar lágar og breiðar skálar frá Emile Henry og blandan hefði komist í 5 þannig (á bara fjórar). Til að búðingurinn bakist jafnt er hægt að setja skálarnar í ofnskúffu og hella soðnu vatni í þannig að fljóti um skálarnar. Setjið inn í 150°C heitan ofn og bakið í ca. 30 mínútur eða þar til búðingurinn hefur stirnað. Kælið svo í minnst 4 tíma eða til næsta dags. Stráið svo þunnu lagi af hrásykri yfir og brennið með gasbrennara eða á grillstillingu í ofni. Ef gasbrennari er notaður er gott að halla skálinni og snúa meðan sykurinn er hitaður. Kælið létt og berið svo fram með rjúkandi kaffibolla.

IMG_3563

Valhnetubollakökur með marskremi

Ég fékk bókina Søde Sager eftir Mette Blomsterberg í jólagjöf og átti alltaf eftir að baka eitthvað úr þeirri bók. Mette er afburða konditormeistari og rekur kaffihús í Glyptoteket. Eftir miklar vangaveltur og kökulanganir ákvað ég að prófa þessar valhnetubollakökur. Mér leist ekki á kremið sem var í bókinni og vöntunina á súkkulaði þannig að ég lagaði uppskriftina aðeins til. En úr var afbragðs kvöldhressing sem bragðaðist unaðslega með ískaldri mjólk. Njótið vel 🙂 .

Bollakökur:
1 vanillustöng
150 g hrásykur
250 g hveiti
3 tsk lyftiduft
1/2 tsk salt
2 egg
100 g bragðlítil olía
2,5 dl mjólk
50 g grófhakkaðar valhnetur
1 mars skorið í litla bita

Aðferð:
Vanillustöngin skorin í tvennt og fræhreinsuð. Takið smá af sykrinum og blandið saman við vanillufræin. Blandið hveiti, sykri, lyftidufti og salti saman í skál og hrærið létt. Hrærið út í eggjunum og olíunni og því næst mjólkinni í smáum skömmtum. Bætið að lokum hnetunum og marsinu út í. Athugið að gott er að velta marsbitunum upp úr örlitlu hveiti svo að þeir festist ekki saman. Skiptið deiginu jafnt í muffinsform og bakið í 175°C heitum ofni í u.þ.b. 16 mín. Úr deiginu ættu að koma 10-12 kökur.

Kremið ofan á var fengið að láni frá mömmur.is en ég gerði bara 1/3 af þeirri uppskrift. Einnig lét ég smá mjólk út í súkkulaðið og marsið meðan það var að bráðna.
IMG_3310