Grófar súkkulaðibitakökur

Flestar tegundir af súkkulaðibitakökum eru mjög góðar, en þessar eru framúrskarandi frábærar. Þær eru tilvaldar fyrir þá sem finnst súkkulaði ekki vont, því þær innihalda óvenju mikið af því. Haframjölið gefur svo kökunum sjálfum grófa áferð og enn betra bragð.

Súkkulaðibitakökur (16 – 20 stk.):

115 g smjör (mjúkt)
115 g púðursykur
1 egg
1 tsk vanilludropar
150 g hveiti
1 1/2 tsk lyftiduft
1/2 tsk salt
75 g haframjöl
200 g suðusúkkulaði, niðurskorið

Stillið ofninn á 190°C. Blandið mjúku smjörinu og sykri vel saman í skál. Bætið svo eggi og vanilludropum í skálina og hrærið vel. Sigtið svo hveiti í skálina, bætið lyftidufti og salti út í og hrærið lítillega. Bætið svo  haframjöli og súkkulaðibitum út í og hrærið vel. Setjið bökunarpappír á plötu og búið til 16 – 20 grófa deigklumpa á pappírnum. Skellið svo plötunni inn í ofn og bakið í 12-15 mínútur.

Best er að borða kökurnar volgar og drekka ískalda mjólk með (nú eða kaffi, kjósi fólk það frekar). Enn betra er ef þetta er gert á nöprum og stormasömum vetrareftirmiðdegi eða -kvöldi. Þessari uppskrift má svo auðvitað breyta lítillega, t.d. með því að nota hvítt og dökkt súkkulaði til helminga eða með því að bæta við hökkuðum hnetum.

2 hugrenningar um “Grófar súkkulaðibitakökur

Færðu inn athugasemd