17. júní kaka

Gleðilega þjóðhátíð í gær öllsömul!

Hér á Birkigötu var haldin heljarinnar grillveisla í tilefni 70 ára afmælis íslenska lýðveldisins og meira að segja einn Dani tók þátt í fögnuðinum! Það voru grillaðir hamborgarar með heimagerðu hamborgarabrauði sem var mjög góð tilbreyting, þeir sem vilja prófa geta nálgast uppskriftina hér. Í eftirrétt var þessi þjóðlega kaka, með súkkulaðipekanhnetubotni, súkkulaðikremi og berjum og kókos ofan á.
IMG_2415
Súkkulaðipekankaka:
100 g smjör, mjúkt
3 dl sykur
2 egg
1 1/2 dl hveiti
4 msk kakó
1 1/2 tsk vanilludropar
1/4 tsk salt
1 dl pekanhnetur, hakkaðar

Krem:
1 1/2 dl flórsykur
1/4 bolli kakó
2-3 msk mjólk/kaffi
1-2 msk smjör, mjúkt
1 tsk vanilludropar

Aðferðin er sáraeinföld, þessu er öllu einfaldlega hrært saman þar til allt er orðið að einum graut. Deigið er látið í smurt kökuform og bakað í 180°C heitum ofni í um 30 mín. Þegar kakan hefur kólnað er öllu hráefninu í kremið hrært saman og sett á kökuna. Í tilefni þjóðhátíðarinnar var gerð ein og hálf uppskrift af kökunni og bláberjum, jarðaberjahelmingum og kókos raðað á til að mynda fánann en fyrir önnur tilefni er algjör unaður að láta hindber og pekanhnetur ofan á.

Auglýsingar

Afmæliskaka

Þessi súkkulaðikaka hefur verið í hávegum höfð heima hjá mér síðan ég man eftir mér, enda er hún rosalega góð. Mamma fékk þessa uppskrift á námskeiði í Húsmæðraskólanum. Ef hún er gerð hversdags má bara skella uppáhaldskreminu á og smá kökuskrauti. Fyrir afmæli er hægt að skreyta hana með smjörkremi og nammi eftir bestu getu.

ljon

Þessi kaka var borðuð í 8 ára afmæli hjá Kormáki

Súkkulaðikaka frá Húsmæðraskóla Reykjavíkur:
1 3/4 bolli hveiti
1 1/2 bolli sykur
1/3 bolli kakó
1 1/2 tsk lyftiduft
1/2 tsk matarsódi
!/2 bolli smjörlíki
1/2 bolli kaffi
1/2 bolli mjólk
2 egg
1 tsk vanilludropar

Öllu nema eggjunum blandað saman og hrært. Eggjunum bætt út í seinast og hrært í tvær mínútur. Hellið í vel smurt form og bakið í ca. 25 mín við 175°C.

Dökkt súkkulaðikrem:
150 g suðusúkkulaði
70-80 g palmin plöntufeiti (mætti nota kókosolíu í staðinn)
2-3 egg
1 msk sykur

Súkkulaði og feitin brædd saman, egg og sykur þeytt í annari skál. Bráðinni hellt út í eggjahræruna og þeytt á meðan. Leyfið aðeins að kólna áður en dreift er yfir kökuna.

Smjörkrem til skreytingar:
220 g flórsykur
3 eggjarauður
150 g smjör, mjúkt
Vanilludropar

Öllu hrært vel saman. Ef lita á kremið er matarlit hrært út í seinast.

Í ljónakökuna fór tvöföld uppskrift af súkkulaðikökunni en einföld uppskrift af báðum kremunum. Súkkulaðikreminu var dreift yfir alla kökuna eftir að hún hafði kólnað. Þá var kakan látin aftur í ískáp meðan smjörkremið var útbúið og því næst sprautað á.