Rabarbara-engifersíróp

Sæl aftur!

Þar sem ég skrapp til Íslands um miðjan maí datt bloggið smá úr takti, en hvað um það, áfram höldum vér! Á Íslandi smakkaði ég reyndar alveg unaðslegt rabarbaragos frá Himnesk Hollusta á veitingastaðnum Gló, sem er líka alveg tryllt góður. Þetta gos er reyndar ekki nýtt á markaðnum en ég var allavega nógu mikið eftirá til að smakka það fyrst núna. Allavega, það var alveg rosalega gott og þó að ég hafi fyllt hálfa ferðatöskuna af íslenskum mat þá komst rabarbaragosið ekki með. Þá brá ég á það ráð að endurskapa eitthvað þvíumlíkt. Úr varð þetta rabarbara-engifersíróp sem hægt er að nota eins og þykkni út í sódavatn til að búa til bleikan og sætan drykk.

Hráefni:
225 g rabarbari
ca. 5 cm engiferrót (um 40 g)
4 dl vatn
2 dl sykur

IMG_2083
Rabarbarinn og engifer er skolaður og skorinn í bita, og látinn í pott með vatninu og suðan látin koma upp. Hitinn er lækkaður og blandan látin malla í um 15-20 mín. Þá er blandan sigtuð í skál eða annan pott. Ég notaði sigti og eldhúspappír, en fínt sigti ætti kannski að duga.
IMG_2091

Þá fær maður þennan fína bleika vökva, sem má búa til sírópið úr. Vökvanum er skellt aftur í pott ef hann var ekki þar nú þegar og sykurinn látinn út í. Auðvitað má minnka eða stækka sykurmagnið eftir smekk. Sykurblandan er hituð aftur næstum að suðu eða þar til sykurinn hefur leyst upp. Þá þarf bara að láta blönduna kólna aftur og tappa á fýsileg ílát.
IMG_2104IMG_2149

Til að gera rabarbaragos er sírópinu bara hellt í glas ásamt sódavatni og limesneiðum í smekklegum hlutföllum og hræra vel í. Njótið vel!

Auglýsingar