17. júní kaka

Gleðilega þjóðhátíð í gær öllsömul!

Hér á Birkigötu var haldin heljarinnar grillveisla í tilefni 70 ára afmælis íslenska lýðveldisins og meira að segja einn Dani tók þátt í fögnuðinum! Það voru grillaðir hamborgarar með heimagerðu hamborgarabrauði sem var mjög góð tilbreyting, þeir sem vilja prófa geta nálgast uppskriftina hér. Í eftirrétt var þessi þjóðlega kaka, með súkkulaðipekanhnetubotni, súkkulaðikremi og berjum og kókos ofan á.
IMG_2415
Súkkulaðipekankaka:
100 g smjör, mjúkt
3 dl sykur
2 egg
1 1/2 dl hveiti
4 msk kakó
1 1/2 tsk vanilludropar
1/4 tsk salt
1 dl pekanhnetur, hakkaðar

Krem:
1 1/2 dl flórsykur
1/4 bolli kakó
2-3 msk mjólk/kaffi
1-2 msk smjör, mjúkt
1 tsk vanilludropar

Aðferðin er sáraeinföld, þessu er öllu einfaldlega hrært saman þar til allt er orðið að einum graut. Deigið er látið í smurt kökuform og bakað í 180°C heitum ofni í um 30 mín. Þegar kakan hefur kólnað er öllu hráefninu í kremið hrært saman og sett á kökuna. Í tilefni þjóðhátíðarinnar var gerð ein og hálf uppskrift af kökunni og bláberjum, jarðaberjahelmingum og kókos raðað á til að mynda fánann en fyrir önnur tilefni er algjör unaður að láta hindber og pekanhnetur ofan á.

Auglýsingar

Kókosmuffins

Hér er uppskrift af kókosköku sem ég baka oft. Hægt er að baka kökuna í muffinsformi eða bara venjulegu sandkökuformi þá jafnvel hægt að sleppa kreminu því kakan verður ekkert þurr.

Kökur:
4 egg
3 1/2 dl sykur
1 tsk vanilludropar
1/2 tsk salt
1 1/4 tsk lyftiduft
5 3/4 dl hveiti
170 g smjör, mjúkt
400 ml kókosmjólk

Krem:
200 g rjómaostur
75 g smjör
3/4 tsk vanilludropar
1/4 tsk salt
250 g flórsykur
Kókosmjöl til skreytingar

Hitið ofninn í 180°C. Hrærið egg og sykur saman þar til blandan verður létt og ljós. Bætið vanilludropum, salti og lyftidufti út í. Bætið því næst hveitinu og smjörinu út í og hrærið vel. Að lokum er kókosmjólkinni blandað saman við. Látið í muffinsform og bakið í 20-25 mín. Ef notað er stærra form fyrir allt deigið þarf að baka í 35-40 mín.

Kremið er gert með því að þeyta saman rjómaost og smjör (best að hafa bæði við stofuhita) og svo er restinni bætt saman við og hrært vel. Einnig má bæta 2 dl af kókosmjöli beint út í kremið. Hægt er að skreyta kökurnar með kókosmjöli sem hrært hefur verið með ögn af matarlit til að lífga upp á tilveruna. Njótið vel.