Bananakaka

IMG_2450
Ég játa! Þetta er eiginlega bara bananabrauð að þykjast vera kaka, en það hefur ýmsa kosti í för með sér. T.d. kippir sér enginn upp við það þegar maður lætur karamellusósu og ís á köku, en ef maður mundi gera það við brauð yrði maður litinn hornauga í samfélaginu.

Bananakaka:
125 g smjör, mjúkt
3/4 bolli púðursykur
2 egg
2-3 bananar, eftir stærð
1 dl ab-mjólk
1 1/2 tsk vanilludropar
1 1/2 bolli hveiti
1 1/2 tsk lyftiduft
1/2 tsk matarsódi

Smjörið og púðursykurinn er þeytt saman, eggjunum bætt út í einu í einu. Bananarnir eru maukaðir í matvinnsluvél og bætt út í blönduna ásamt vanillu og ab-mjólk (má líka nota sýrðan rjóma og mjólk). Hveiti, lyftiduft og matarsódi er sigtað út í og hrært þangað til kökudeig myndast 🙂 Hellið í smurt kökuform og bakið við 175°C í um 45 mínútur eða þar til kakan hefur brúnast aðeins að ofan. Berið fram með vanilluís, bananasneiðum og e.t.v. karmellusósu.

Auglýsingar

Döðlukaka

Þessi döðlukaka er alveg syndsamlega góð, smakkaði hana í veislu hjá systur minni og heimtaði að fá uppskriftina. Uppskriftin leyndist í uppskriftabók sem gefin var út af starfsmönnum Íslandsbanka og hefur líka birst í Gestgjafanum, ég vona að það sé í lagi að ég birti hana hér.

Kaka:
250 g döðlur
3 dl vatn
1 tsk matarsódi
1 tsk vanilludroparOLYMPUS DIGITAL CAMERA
100 g púðursykur
100 g smjör
2 egg
150 g hveiti
120 g súkkulaði saxað

Karamellusósa:
120 g smjör
100 g púðursykur
3/4 dl rjómi

Svona er farið að: Döðlurnar eru steinhreinsaðar og hitaðar í potti með 3 dl af vatni þar til þær verða mjúkar, svo eru þær maukaðar og blandan látin kólna. Púðursykur og smjör þeytt saman í skál og eggjunum bætt út í einu í einu. Matarsóda, döðlumaukinu og vanilludropum er bætt út í ásamt hveiti og súkkulaði. Hellið í form og bakið við 180°C í um 30 mín eða þar til kakan er tilbúin.

Allt sem þarf í sósuna er sett saman í pott og látið krauma í nokkrar mínútur. Berið kökuna fram með þeyttum rjóma eða ís og karamellusósunni.

p.s. Þessi kaka er alveg dísæt vegna sætunnar frá döðlunum, því mætti örugglega vel sleppa sykrinum í kökunni.

Uppfært: Hef prófað án sykurs, virkaði fullkomnlega!