Gráðostadýfa og kjúklingavængir

Þessir kjúklingavængir og gráðostasósa eru algjört æði og ég mæli eindregið með því að þið prófið þetta. Uppskriftin er kannski dálítið tímafrek en í rauninni er þetta frekar lítið mál og frábært lúxussnakk með sjónvarpsglápi. Þetta gúmmelaði var einmitt innbyrgt yfir Eurovision-áhorfi núna á laugardaginn.
IMG_2025
Gráðostasósa:
Gráðostur (um 100 g)
200 g sýrður rjómi
3 msk mæjónes (má sleppa)
Nýkreistur sítrónusafi, eftir smekk
Hvítlaukssalt
Pipar

Aðferð: Maukið gráðostinn með gaffli og hrærið vel saman við sýrða rjómann og mæjónesið. Svo er ca. hálf sítróna kreist yfir og saltað og piprað eftir smekk. Í staðinn fyrir hvítlaukssalt má líka kreista lítið hvítlauksrif út í og nota venjulegt salt.

Kjúklingavængir:
ca. 800 g kjúklingavængir
Hveiti ca. 2 dl
1 tsk Salt
Pipar
1 tsk laukduft
1/4 tsk cayenne pipar
1 tsk paprikuduft

Sósa:
ca. 60 g smjör
1 dl tómatsósa
1/2 dl sriracha chili sósa (ath frekar sterk sósa)
Skvetta af Worcestershire sósa
Skvetta af eplaediki (hægt að nota hvernig edik sem er)
Örlítið hunang (má sleppa)
Pipar og salt eftir smekk
Cayenne pipar (sleppa ef þið viljið ekki of sterkt)

Við gerð kjúklingavængjanna notaðist ég við þessa uppskrift frá Foodwishes sem ég mæli eindregið með að þið skoðið. Þó þurfti nokkrar breytingar til þar sem ég á ekki Frank’s Hot Sauce og veit ekki til þess að það fáist í Kaupmannahöfn. Hlutföllin í uppskriftinni eru líka frekar frjálsleg þar sem ég mældi í rauninni ekkert heldur fór bara eftir auganu. Ég þerraði bara kjúklingavængina vel, svo lét ég þá í poka með hveiti, salti, pipar, laukdufti, cayenne pipar og paprikudufti og hristi til. Vængjunum er raðað á ofnplötu með bökunarpappír eða álpappír sem hefur verið penslaður með olíu. Svo eru vængirnir eldaðir inni í 200°C heitum ofni í um hálftíma og svo snúið við og látnir eldast áfram í um 15-20 mín.

Á meðan kjúklingurinn eldast er allt í sósuna látið í pott og brætt saman (þarf ekki að sjóða). Svo er eina ráðið að smakka þetta til því að það er mismunandi hvað fólk vill hafa sósuna sterka. Ef sósan er of sterk er hægt að þynna hana út með vatni. Annars má þetta alveg rífa í því það er einmitt þetta sterka bragð sem passar svo vel með gráðostasósunni. Þegar vængirnir eru tilbúnir eru þeir settir í skál (því stærri því betri) og sósunni hellt yfir. Hristið/hrærið þar til allir vængirnir eru útataðir í sósu. Þá eru þeir settir á disk og látnir standa í nokkrar mínútur til að kólna. Einnig er hægt að láta þá aftur inn í ofninn í nokkrar mínútur til að sósan þorni aðeins utan á þeim, sem er gott þar sem eina/besta leiðin til að borða þá er með puttunum. Gott er að bera gráðostadýfuna og vængina fram með niðurskornu selleríi til að kæla munninn á milli bita. Njótið vel!

Auglýsingar