Rabarbara-engifersíróp

Sæl aftur!

Þar sem ég skrapp til Íslands um miðjan maí datt bloggið smá úr takti, en hvað um það, áfram höldum vér! Á Íslandi smakkaði ég reyndar alveg unaðslegt rabarbaragos frá Himnesk Hollusta á veitingastaðnum Gló, sem er líka alveg tryllt góður. Þetta gos er reyndar ekki nýtt á markaðnum en ég var allavega nógu mikið eftirá til að smakka það fyrst núna. Allavega, það var alveg rosalega gott og þó að ég hafi fyllt hálfa ferðatöskuna af íslenskum mat þá komst rabarbaragosið ekki með. Þá brá ég á það ráð að endurskapa eitthvað þvíumlíkt. Úr varð þetta rabarbara-engifersíróp sem hægt er að nota eins og þykkni út í sódavatn til að búa til bleikan og sætan drykk.

Hráefni:
225 g rabarbari
ca. 5 cm engiferrót (um 40 g)
4 dl vatn
2 dl sykur

IMG_2083
Rabarbarinn og engifer er skolaður og skorinn í bita, og látinn í pott með vatninu og suðan látin koma upp. Hitinn er lækkaður og blandan látin malla í um 15-20 mín. Þá er blandan sigtuð í skál eða annan pott. Ég notaði sigti og eldhúspappír, en fínt sigti ætti kannski að duga.
IMG_2091

Þá fær maður þennan fína bleika vökva, sem má búa til sírópið úr. Vökvanum er skellt aftur í pott ef hann var ekki þar nú þegar og sykurinn látinn út í. Auðvitað má minnka eða stækka sykurmagnið eftir smekk. Sykurblandan er hituð aftur næstum að suðu eða þar til sykurinn hefur leyst upp. Þá þarf bara að láta blönduna kólna aftur og tappa á fýsileg ílát.
IMG_2104IMG_2149

Til að gera rabarbaragos er sírópinu bara hellt í glas ásamt sódavatni og limesneiðum í smekklegum hlutföllum og hræra vel í. Njótið vel!

Auglýsingar

Rabarbara- eplabaka

Gleðilegan 1. maí! Á þessum degi verkalýðsins er ekki úr vegi að skella í eina góða böku með rabarbara og eplum. Ég er ekki alveg viss um að baka sé rétta orðið í þessu samhengi en ég veit ekki gott orð yfir svona heita ávexti með stökku deigi yfir. En á ensku mundi þetta heita „crumble“. Kannski rabarbara -eplakrumla 🙂 Rabarbari vex allavega í mörgum görðum á Íslandi og villtur og því um að gera að nýta hann í sem flesta rétti, mikil búgdrýgindi það. Það tók mig sáran að kaupa mér rabarbara út í Brugsen en ég hef ekki séð rabarbara á víðavangi hér í Kaupmannahöfn og bý ekki svo vel að eiga garð.IMG_1958

Fylling:
Rabarbari, um 8-10 stönglar
Epli, 2-3
Safi úr hálfri appelsínu, má sleppa
1-2 cm engiferrót, rifin
Hrásykur, eftir auganu

Deigið:
100 gr smjör, kalt
ca. 1 dl hrásykur
ca. 1/2 dl kókoshveiti (má sleppa, og nota bara meira venjulegt hveiti)
ca. 1/2  dl hveiti
ca. 1 dl hafrar

IMG_1934

Skolið rabarbarann vel og skerið í litla IMG_1936bita, skerið eplin einnig í svipaða bita. Kreistið appelsínusafann yfir, blandið saman við rifna engiferinu og stráið smá hrásykri/sykri yfir. Bræðið örlítið smjör á pönnu og mýkið rabarbara/epla blönduna yfir miðlungshita. Látið svo blönduna í botninn á eldföstu móti og útbúið deigið.

IMG_1938

Í skál er smjör og sykri blandað saman, mér finnst best að nota hendurnar til að kreista þurrefnunum inn í smjörið. Svo er hveiti, kókoshveiti og höfrum blandað út í þangað til að deigið molnar svona í höndunum á manni án þess þó að vera of þurrt. Þá er deiginu pakkað ofan á rabarbarann og eplin og bakað inni í 180°C heitum ofni í um 35-45 mín, eða þar til deigið er orðið stökkt og gullið.

Á meðan bakan bakast er hægt að læra þýsku með því að horfa á myndbandið hér að neðan. Svo er gott að borða bökuna með þeyttum rjóma eða vanilluís.