Rabarbara- eplabaka

Gleðilegan 1. maí! Á þessum degi verkalýðsins er ekki úr vegi að skella í eina góða böku með rabarbara og eplum. Ég er ekki alveg viss um að baka sé rétta orðið í þessu samhengi en ég veit ekki gott orð yfir svona heita ávexti með stökku deigi yfir. En á ensku mundi þetta heita „crumble“. Kannski rabarbara -eplakrumla 🙂 Rabarbari vex allavega í mörgum görðum á Íslandi og villtur og því um að gera að nýta hann í sem flesta rétti, mikil búgdrýgindi það. Það tók mig sáran að kaupa mér rabarbara út í Brugsen en ég hef ekki séð rabarbara á víðavangi hér í Kaupmannahöfn og bý ekki svo vel að eiga garð.IMG_1958

Fylling:
Rabarbari, um 8-10 stönglar
Epli, 2-3
Safi úr hálfri appelsínu, má sleppa
1-2 cm engiferrót, rifin
Hrásykur, eftir auganu

Deigið:
100 gr smjör, kalt
ca. 1 dl hrásykur
ca. 1/2 dl kókoshveiti (má sleppa, og nota bara meira venjulegt hveiti)
ca. 1/2  dl hveiti
ca. 1 dl hafrar

IMG_1934

Skolið rabarbarann vel og skerið í litla IMG_1936bita, skerið eplin einnig í svipaða bita. Kreistið appelsínusafann yfir, blandið saman við rifna engiferinu og stráið smá hrásykri/sykri yfir. Bræðið örlítið smjör á pönnu og mýkið rabarbara/epla blönduna yfir miðlungshita. Látið svo blönduna í botninn á eldföstu móti og útbúið deigið.

IMG_1938

Í skál er smjör og sykri blandað saman, mér finnst best að nota hendurnar til að kreista þurrefnunum inn í smjörið. Svo er hveiti, kókoshveiti og höfrum blandað út í þangað til að deigið molnar svona í höndunum á manni án þess þó að vera of þurrt. Þá er deiginu pakkað ofan á rabarbarann og eplin og bakað inni í 180°C heitum ofni í um 35-45 mín, eða þar til deigið er orðið stökkt og gullið.

Á meðan bakan bakast er hægt að læra þýsku með því að horfa á myndbandið hér að neðan. Svo er gott að borða bökuna með þeyttum rjóma eða vanilluís.

Auglýsingar

Crème brûlée

Mikill persónulegur sigur vannst í eldhúsinu í dag þar sem mér tókst að búa til sómasamlegt Crème brûlée. Nokkrar misheppnaðar tilraunir hafa verið gerðar hingað til og þetta var farið að leggjast alvarlega á sálina hjá mér. Um jólin fékk ég bókina Søde Sager eftir Mette Blomsterberg, sem er kontitori sjéní, ásamt handhægum gasbrennara og skálum þannig að öll tæki voru til staðar. En allavega nú er kominn júní og þetta heppnaðist loksins! Ekki vera hrædd, þetta var bara önnur tilraun ársins. Hér er uppskriftin og aðferðin, þetta er víst ekki svo flókið 😉

Fyrir fjóra til fimm:
100 g hrásykur
1,3 dl af eggjarauðum
6,5 dl af rjóma
1 vanillustöng
hrásykur til að strá yfir

IMG_3559100 g hrásykur og eggjarauður eru hrærðar saman með handþeytara. Vanillustöngin klofin og kornin skröpuð út og látin í pott ásamt rjómanum. Rjóminn er hitaður að suðu og látin malla í örfáar mínútur. Takið af hitanum, hellið smátt og smátt saman við eggjahræruna og hrærið stöðugt í á meðan. Hrærið aðeins áfram þegar allur rjóminn er kominn út í. Fleytið svo mestu froðuna ofan af og hellið í skálar. Ég var með frekar lágar og breiðar skálar frá Emile Henry og blandan hefði komist í 5 þannig (á bara fjórar). Til að búðingurinn bakist jafnt er hægt að setja skálarnar í ofnskúffu og hella soðnu vatni í þannig að fljóti um skálarnar. Setjið inn í 150°C heitan ofn og bakið í ca. 30 mínútur eða þar til búðingurinn hefur stirnað. Kælið svo í minnst 4 tíma eða til næsta dags. Stráið svo þunnu lagi af hrásykri yfir og brennið með gasbrennara eða á grillstillingu í ofni. Ef gasbrennari er notaður er gott að halla skálinni og snúa meðan sykurinn er hitaður. Kælið létt og berið svo fram með rjúkandi kaffibolla.

IMG_3563