17. júní kaka

Gleðilega þjóðhátíð í gær öllsömul!

Hér á Birkigötu var haldin heljarinnar grillveisla í tilefni 70 ára afmælis íslenska lýðveldisins og meira að segja einn Dani tók þátt í fögnuðinum! Það voru grillaðir hamborgarar með heimagerðu hamborgarabrauði sem var mjög góð tilbreyting, þeir sem vilja prófa geta nálgast uppskriftina hér. Í eftirrétt var þessi þjóðlega kaka, með súkkulaðipekanhnetubotni, súkkulaðikremi og berjum og kókos ofan á.
IMG_2415
Súkkulaðipekankaka:
100 g smjör, mjúkt
3 dl sykur
2 egg
1 1/2 dl hveiti
4 msk kakó
1 1/2 tsk vanilludropar
1/4 tsk salt
1 dl pekanhnetur, hakkaðar

Krem:
1 1/2 dl flórsykur
1/4 bolli kakó
2-3 msk mjólk/kaffi
1-2 msk smjör, mjúkt
1 tsk vanilludropar

Aðferðin er sáraeinföld, þessu er öllu einfaldlega hrært saman þar til allt er orðið að einum graut. Deigið er látið í smurt kökuform og bakað í 180°C heitum ofni í um 30 mín. Þegar kakan hefur kólnað er öllu hráefninu í kremið hrært saman og sett á kökuna. Í tilefni þjóðhátíðarinnar var gerð ein og hálf uppskrift af kökunni og bláberjum, jarðaberjahelmingum og kókos raðað á til að mynda fánann en fyrir önnur tilefni er algjör unaður að láta hindber og pekanhnetur ofan á.

Auglýsingar

Heitur chia grautur

Nú þegar chia fræ eru í algleymingi er ekki úr vegi að fá sér einn gúrme graut. Chia fræ gefa frá sér gelkenndan vökva þegar þau blotna og eru því tilvalin í graut. Áferðin getur samt verið dálítið sérkennileg og er kannski ekki allra. Þessi grautur er mjög góður fyrir þá sem vilja prófa sig áfram í chia. Chichichichichia.

Chia grautur:

1 msk chia fræ
1/2 dl haframjöl
1 1/2 dl kókosmjólk
1/2 dl mjólk
(Ég notaði skummetmælk, sem er danska undanrennan)
ögn af vanilludropum
smá salt

Öllu blandað saman í pott og hitað við mjög vægan hita þar til grauturinn hefur þykknað. Nota þarf mjög vægan hita því kókosmjólkin getur brunnið auðveldlega. Það má auðvitað líka nota hvaða vökva sem ykkur dettur í hug til að sjóða grautinn upp úr og gott að prófa sig áfram með meðlæti og krydd. Þessi var borðaður með bláberjum og smá sírópi. Nammi namm.