Bananakaka

IMG_2450
Ég játa! Þetta er eiginlega bara bananabrauð að þykjast vera kaka, en það hefur ýmsa kosti í för með sér. T.d. kippir sér enginn upp við það þegar maður lætur karamellusósu og ís á köku, en ef maður mundi gera það við brauð yrði maður litinn hornauga í samfélaginu.

Bananakaka:
125 g smjör, mjúkt
3/4 bolli púðursykur
2 egg
2-3 bananar, eftir stærð
1 dl ab-mjólk
1 1/2 tsk vanilludropar
1 1/2 bolli hveiti
1 1/2 tsk lyftiduft
1/2 tsk matarsódi

Smjörið og púðursykurinn er þeytt saman, eggjunum bætt út í einu í einu. Bananarnir eru maukaðir í matvinnsluvél og bætt út í blönduna ásamt vanillu og ab-mjólk (má líka nota sýrðan rjóma og mjólk). Hveiti, lyftiduft og matarsódi er sigtað út í og hrært þangað til kökudeig myndast 🙂 Hellið í smurt kökuform og bakið við 175°C í um 45 mínútur eða þar til kakan hefur brúnast aðeins að ofan. Berið fram með vanilluís, bananasneiðum og e.t.v. karmellusósu.

Auglýsingar

Bananasmákökur

Á rigningardögum er hrikalega huggulegt að læra heima. Huggulegheitin aukast til muna ef maður hefur tíma til að baka 🙂

Hér er afar einföld uppskrift að u.þ.b. 20 hollum bananasmákökum, hráefnin eru yfirleitt til og það fer ekki mikill tími í þær.

Bananasmákökur:

  • 175 gr þurrkaðar, steinlausar döðlur
  • 3 bananar
  • 5 dl haframjöl
  • 3/4 dl olía
  • 1 tsk vanillusykur

Ofninn hitaður í 175°. Steinarnir teknir úr döðlunum og þær hakkaðar. Bananar stappaðir í skál, og blandaðir með döðlum, hafragrjónum, olíu og vanillusykri. Látið blönduna hvíla í 15 mín. Litlar kökur búnar til með skeið og settar á bökunarplötu. Bakið smákökurnar í 20 mín og berið fram volgar.