Nørrebro smjör

IMG_1912

Á Nørrebro Bryghus hér í Kaupmannahöfn er hægt að smakka á ýmsum tegundum af mjöð og mat. Við fórum þangað út að borða síðasta haust þegar bróðir minn og kærastan hans komu í heimsókn hingað og fengum þriggja rétta máltíð og bjóra með hverjum rétt, mikið splæs, mikill bjór. Allt alveg gríðarlega bragðgott og næsað. En það sem stóð upp úr var samt brauðið á borðinu og smjörið með því. Guðdómlegt smjör með hnetukeim og nýbakað súrdeigsbrauð. Þar sem elshúsið var svona hálf opið náði ég að blikka mann í eldhúsinu og veiða upp úr honum uppskriftina, sem var gífurlega einföld og svohljóðandi: Takið smjör, skiptið stykkinu í tvennt, brúnið helminginn í potti, sigtið. Blandið brúnaða smjörinu við venjulega smjörið. Semsagt smjör blandað við sjálft sig. Ég vona að myndirnar sýni þetta betur. Óhugnarlega gott á nýbakað brauð eða jafnvel til að nota í smákökuuppskriftir til að fá meira bragð.

IMG_1898

Skiptið smjörinu í helminga

IMG_1901

Mmm bráðið smjör

IMG_1906

Látið smjörið krauma þangað til það verður karamellulitað og ilmandi

IMG_1910

Sigtið í skál og látið nálgast herbergishita svo að það bræði ekki hitt smjörið sem kemur út í

IMG_1911

Þegar brúnaða smjörið hefur kólnað má hræra því saman við sinn fyrri helming og kæla svo áfram. Þá er allt tilbúið!

Auglýsingar

Bollakökur með sítrónu og birkifræjum

Á mánudaginn fór ég örstutt matreiðslunámskeið hjá heilsu-idol-inu mínu, hinni frægu Röggu Nagla (hún er með blogg hér). Þar lærðum við að gera alls kyns hollustugúmmelaði úr framandi efnum eins og próteindufti, steviudropum og sukrin. Eftir það námskeið fór ég að sjálfsögðu í næstu heilsubúð og keypti dýrum dómum sukrin gold sem kemur nokkurn veginn í staðinn fyrir púðursykur eða hrásykur og svo splæsti ég einnig í kókoshnetuhveiti. Svo reyndi ég eftir bestu getu að gera hollar bollakökur. En góðir hlutir gerast í smáum skrefum sagði kannski einhver ekki, en ég skipti allavega sykrinum út fyrir sukrin. Ég þorði ekki að taka hveitið út því mig langaði í fluffy og sjúklega góðar bollakökur, kókoshnetuhveitið getur verið dáldið þungt. Allavega, hér eru mjög góðar og páskalegar bollakökur með sítrónubragði og birkifræjum með örlitlu hollustuívafi. Birkifræ hafa samt ekkert með birki að gera, heldur eru þetta fræ af valmúaplöntu, þetta byggir víst allt á e-rjum jiddískum misskilningi.
IMG_1864

Bollakökur:
220 g hveiti
1 1/2 tsk lyftiduft
150 g sukrin gold eða hrásykur
2 kúfaðar msk birkifræ
Börkur af 2 sítrónum, bara guli hlutinn
1 tsk vanilludropar
2 stór egg
1 dl olía
1 dl ab mjólk
3/4 dl eplamauk

Aðferð:
Ég ákvað að leggja birkifræin í bleyti í soðnu vatni meðan ég skellti mér í sólbað, en ef það er ekki sól úti þá má alveg demba þeim bara beint út í 🙂 . Hveiti, sykri, lyftidufti, birkifræjum og sítrónubörk er blandað saman í skál. Öllu hinu hrært saman í annari skál og svo er því blandað saman við þurrefnin, passið bara að hræra ekki of mikið. Svo einfalt er það. Svo er deiginu skipt niður í muffinsformin, þið ættuð að fá um 16 kökur úr þessari uppskrift. Bakað við 180°C í um 15-20 mín eða þar til að prjónn kemur hreinn upp úr kökunum.

Ég ákvað að sleppa hollustunni í kreminu og gerði bara rjómaostakremið góða en þó með aðeins meiri sítrónusafa en áður og aðeins minna af flórsykri (það er líka til sukrin flórsykur). Kremið varð því aðeins meira fljótandi, og svo stráði ég meiri sítrónubörk ofan á. En það má algjörlega sleppa kremi, eða finna e-ð hollara ofan á.

Gleðilega páska!

Karjalanpiirakka

Finnland er kannski er kannski ekki þekkt fyrir matargerð sína en þar leynast þó nokkrir frábærir réttir. Ég bjó í Naantali, í Finnlandi haustið 2007 með systur minni sem var þar í námi og fékk þá að kynnast því hvað Finnland er AWESOME land! Árið 2009 fékk ég svo sumarvinnu í Tampere og fékk að endurnýja kynnin í betra veðri.  Það sem mér finnst einna best í matardeildinni frá Finnlandi (á eftir Missä X!!) eru pirökkur sem eru einhvers konar einhvers konar sætabrauð sem er þó ekki sætt á bragðið. Þær samanstanda af þunnu rúgdeigi og einhverns konar fyllingu. Fyllingin getur verið margs konar, oftast er það grjónagrautur eða grjónagrautur + rifnar gulrætur eða jafnvel kartöflumús.

Grjónagrautur:
2 1/4 dl Grautargrjón
2 1/2 dl vatn
1 l mjólk
Salt

Deig:
3 dl gróft rúgmjöl
2 dl heilhveiti
1 tsk salt
2-2 1/2 dl Vatn

Fyrst er grjónagrauturinn gerður eftir kúnstarinnar reglum, ég byrja reyndar á því að bræða smá smjör í potti og steikja grjónin aðeins í þeim, svo helli ég vatninu út á og læt sjóða þar til vatnið er næstum horfið. Þá lætur maður mjólkina út í, kannski fyrst helminginn og svo bæta alltaf meira í, eða ef maður er óþolinmóður er hægt að demba fernunni út í allri í einu. Svo er grauturinn látinn malla á lágum hita þangað til mjólkin verður svona glansandi og grjónin tilbúin, og þá er hann saltaður. Fyrir þennan tilgang er best að hafa grautinn mjög þykkann, og engar rúsínur takk!

Meðan grautinn er að kólna er rúgmjölinu, heilhveitinu og saltinu blandað saman og hnoðað með vatni. Látið eins mikið vatn og deigið getur tekið við, það þarf að verða hnoðanlegt en má samt alveg vera vel klístrað. Klípið smá af deiginu og hnoðið kúlu sem er á rétt minni en golfkúla, eftir því hvað þið viljið stórar/litlar pirökkur. Stráið vel af hveiti á kúluna og fletjið aðeins út í höndunum. Svo þarf að strá meira af hveiti á borðið og fletja út deigið með kökukefli í spöröskjulaga köku á stærð við hendi. Skv. Finnum á deigið að vera það þunnt að maður sjái sólskinið í gegn, en það má heldur ekki rifna því það þarf að halda á grjónagrautnum. Allavega, svo er grjónagrautur settur inn í og kanturinn klipinn upp á grautinn eins og vonandi sést á myndinni. Ég tók hluta af grjónagrautnum frá og blandaði við rifnar gulrætur.

piiraka

Þessi uppskrift ætti að gefa um 20 kökur, eftir því hvað deigið er þunnt og kökurnar stórar. Allt er þetta bakað inn í heitum ofni, um 270°C í um 10-15 mín eða þar til kantarnir eru orðnir létt brúnaðir og grautinn með svona þurrt yfirborð. Um leið og kökurnar koma út úr ofninum er gott að dýfa þeim í smjör og mjólkurblöndu (bráðið smjör og mjólk blandað saman). Svo eru kökurnar látnar kólna undir hreinu viskustykki til að þær haldist mjúkar.

IMG_1818

Hefðbunda leiðin er að bera þessar fram volgar með eggjasmjöri. Þá eru harðsoðin egg skorin niður og þeim hrært út í mjúkt smjör. Það hljómar undarlega en það er samt furðu gott. Hlutföllin eru kannski bara smekksatriði en ég mér finnst um 50 – 60 g af smjöri vega ágætlega á móti tveimur harðsoðnum eggjum. Annars er líka gott að borða þær bara eintómar, eða með e-rju áleggi. Þær eru líka mjög hentugar í nesti þar sem maður getur auðveldlega fryst þær og hitað bara upp í örbylgjuofni, eða ofan á brauðristinni fyrir þá sem eiga ekki svona nýbylgjuofna. Eins og sést á myndinni þá skapar æfingin vonandi meistarann í útlitsgerð pirakka, en þær eru allavega bragðgóðar, og svo krúttlegar, þær minna mann á sauðskinnskó. Allavega vona ég að þið prófið þetta, þetta er ekki alveg jafn mikið vesen og maður heldur og algjörlega þess virði. Njótið vel!

 

Pad Thai

Í Tælandi í febrúar fórum við Daði á matreiðslunámskeið hjá gæðakonu sem kennd er við Poo. Hún heldur námskeiðið Cooking with Poo sem er gríðarlega vinsælt, hún er að sjálfsögðu tælensk og vissi ekki hvað nafnið hennar þýddi á ensku fyrst um sinn. En hún komst að því og ákvað bara að hlæja að því og prentaði út myndir af kúk til að hengja upp í eldhúsinu. Hún kenndi okkur að elda þennan unaðslega rétt sem heitir Pad Thai sem varð svo uppistöðufæða ferðalagsins, sem sagt borðaður ca. einu sinni á dag í 30 daga. Þessi réttur er bara svo bragðgóður og ferskur, allt þetta lime og chilli og kóríander gerir bara einhverja galdra. Hefðbunda uppskriftin af Pad Thai er kannski með aðeins fleiri innihaldsefnum, eins og t.d. þurrkuðum rækjum og tofu en þetta er einfaldaða útgáfan. 🙂

Pad Thai fyrir tvo:
1 stór kjúklingabringa, skorin í bita (einnig hægt að nota rækjur eða tofu)
200 gr hrísgrjónanúðlur, lagðar í bleyti í um 10-15 mín
1 lítill rauðlaukur
ca. 1.5 cm af galangal eða engiferrót, rifið
Hnefafylli af baunaspírum
2 msk fiskisósa
2 msk hvítt edik
3 msk sykur
Vatn eftir þörfum
Sesamolía, má sleppa
2 egg

Útákast:
Lime
Vorlaukur
Salthnetur, malaðar eða saxaðar
Kóríander, ferskt
Chilliflögur
Sykur, ef vill
Sojasósa, ef vill
IMG_1805 Þessi eldamennska tekur enga stund og því er best að hafa öll hráefnin tilbúin, niðurskorin og mikilvægast er að hafa lagt núðlurnar í bleyti(ATH! það gæti verið mismunandi eftir tegundum). Einnig er gott að setja saman í litla skál fiskisósuna, edik og sykur. En þá felst eldamennskan helst í því að henda hráefnunum á pönnuna í réttri röð. Já byrjum á því að taka fram stóra pönnu, wok ef þið eigið og hita hana vel og skvetta á hana duglega af olíu. Þá hefst hráefnakastið og röðin er svona:
1. Þegar olían er orðin heit er rauðlaukurinn látinn út á og látinn mýkjast í örstutta stund.
2. Látið kjúklinginn út á og steikið ásamt nokkrum dropum af sesamolíu ef því er að heilsa.
3. Núðlurnar (vatnið sigtað frá) látnar út á, og fiskisósan, edikið og sykurinn. Vatn eftir þörfum til að mýkja núðlurnar (ath kannski um hálfur dl)
4. Baunaspírur út á.
5. Öllu dótinu ýtt til hliðar á pönnunni og eggin sett á auða plássið og hræristeikt. Blanda svo öllu saman.

Já þá er maturinn tilbúinn, þetta tók kannski um 5 mínútur eftir því hversu heit pannan var og núðlurnar lengi að mýkjast. Ef núðlurnar eru ennþá harðar þarf að láta meira vatn á pönnuna og steikja þær lengur. En annars er þetta gífurlega einfaldur réttur. Og þá þarf bara að moka þessu á diskana og kreista lime yfir. Það sem er á listanum yfir útákast er frekar mikilvægt fyrir bragðið og því um að gera að sleppa því ekki. Það nauðsynlegasta er vorlaukur, lime og chilliflögur, en hitt gerir þetta ennþá betra.
IMG_1809

Páskaföndur

Ég er svo heppin að fá að vera í saumaklúbbi hérna í Kaupmannahöfn með nokkrum stórskemmtilegum og sniðugum stelpum. Í gær var gerð breyting frá hefðbundnu prjóni og kökuáti og við föndruðum páskaskraut í staðinn (en átum auðvitað líka kökur). Föndrið var frekar sígilt, uppistóð af því að gata egg með nál, blása úr þeim innihaldið og mála þau svo í páskalegum litum. Eftir margra ára „ólistugt“ nám fannst mér best að halda mig við einalda tækni eins og að mála allt í einum lit og kannski setja doppur á. En viti menn, úr varð bara stórgott páskaskraut sem fær að fríska upp íbúðina, reyndar brotnaði eitt eggið en það fékk samt að vera með. Eins gott því eina páskaskrautið á heimilinu eru tveir ungar af páskaeggjum síðasta árs. Eggin voru máluð með akrýl málningu og svo fékk ég að stela svona high fashion brons málningu frá betur undirbúnum klúbbmeðlinum, en hún fæst allavega í Panduro Hobby.

IMG_1800

 

Heimagerður kebab

Halló halló halló,

Enn er fólk á lífi, ég þurfti því miður að fara í sjálfskipað eldunar og bökunarbann á meðan meistaraverkefnið var klárað og því lítið um dýrðir í eldhúsinu. En nú er maður loksins orðinn atvinnulaus verkfræðingur og getur t.d. eldað lambalæri fyrir Íslendingafélagið í Valby á sunnudögum. Þ.e. þegar maður er svo heppinn að eiga slíkt í frystinum. Það var einmitt það sem gerðist síðasta sunnudag, nema hvað að meðlimir Íslendingafélagsins í Valby eru frekar fáir og lærið var ansi stórt. Þess vegna var það líka borðað á mánudag, þriðjudag, miðvikudag og útlit fyrir að það verði aftur á föstudag. Til að hressa upp á afgangana var brugðið á það ráð að hita þá upp á pönnu ásamt framandi kryddum eins og cummin, kóríander og chilli. Grænmetissalinn á horninu lagði til nýbakað tyrkneskt brauð og með fersku grænmeti, sriracha sósu og pítusósu frá E. Finnsson varð til himneskur heimagerður kebab með íslensku lambakjöti!

IMG_0353 IMG_0354 IMG_0357

Slurp slurp slurp…

Portobello borgari

Eftir stóra grillveislu hjá okkur í síðustu viku dúkkaði eitt og annað nýtt uppi í ískápnum. Einhver hafði skilið eftir stærðarinnar portobello svepp og hamborgarabrauð. Búm! Allt til í kvöldmat. Þetta er nú eiginlega engin uppskrift en hér eru innihaldsefnin sem ég notaði.

Portobello sveppur
Laukur
Mexíkóostur
Steinselja
Hamborgarabrauð
Grænmeti

IMG_3597

Stöngullinn er skorinn af sveppnum og saxaður niður ásamt lauk og steinselju og smá mexíkóosti öllu hrært saman og pakkað aftur inn í sveppinn. Drissað með ólífuolíu og látið inn í 200°C heitan ofn þar í um 20 mín eða þar til sveppurinn er tilbúinn. Hamborgarabrauðið einning drissað með olíu og látið ristast inni í ofninum. Svo er það nuddað með hvítlauk og þeim sósum og grænmeti sem manni lystir bætt við. Borðað.IMG_3606